„Við höfðum rétt fyrir okkur“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að engin sérstök ástæða sé til þess að fyrirtæki velti launahækkunum út í verðlagið. Þau verði að halda aftur af sér og gæta varúðar.

Eins og fram kom í gær námu tekjur einstaklinga af arði tæpum þrjátíu milljörðum króna á seinasta framtalsári og jukust um rúm fimmtíu prósent á milli ára.

Þá jukust arðgreiðslur af hlutabréfum um 60% á milli ára en þær námu samtals 28 milljörðum króna í fyrra. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri sagði í Morgunblaðinu í dag að söluhagnaðartekjur hefðu aukist um 40% á milli ára.

„Við sáum það í fyrravor, á ársfundum fyrirtækja, að það var verið að greiða mikinn arð út. Afkoman í atvinnulífinu var mjög góð og þess vegna töldu aðildarfélög okkar óhætt að ganga lengra í launabreytingum,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.

Kjarasamningar snúist líka um réttláta skiptingu þeirra verðmæta sem verða til. Menn hafi talið að það væri borð fyrir báru að ganga lengra í launabreytingum en sem nemur því svigrúmi sem Samtök atvinnulífsins, stjórnvöld og Seðlabankinn töldu mögulegt.

„Þetta segir okkur að við höfðum rétt fyrir okkur,“ segir Gylfi og vísar til nýju álagningartalna ríkisskattstjóra.

Endurreisi launahlutföll

Hann segir að engin ástæða sé til að fyrirtæki velti launahækkunum út í verðlagið.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því að það er mjög mikilvægur þáttur í því að glíma við afleiðingar af hruni að endurreisa eðlileg launahlutföll,“ segir hann.

„Ef fyrirtækin mæta þessu með því að velta þessu öllu út í verðlagið, þá getur einfaldlega reynt á forsendur kjarasamninga. Þá verðum við hér í áframhaldandi deilu á vinnumarkaði. Þess vegna tel ég að fyrirtæki verði að gæta varúðar,“ nefnir hann.

Frétt mbl.is: 28 milljarðar greiddir í arð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert