Einhverjir dropar alla daga vikunnar

Útlit er fyrir skýjað veður í Vestmannaeyjum á þjóðhátíð en …
Útlit er fyrir skýjað veður í Vestmannaeyjum á þjóðhátíð en lítinn vind og litla úrkomu. mbl.is/Árni Sæberg

Veðurspáin fyrir næstu viku er ekkert sérlega mikið gleðiefni fyrir landsmenn. Á Suður- og Vesturlandi er spáð rigningu eða skúrum. Veðurspá er nú komin fyrir laugardaginn um Verslunarmannahelgina og er útlit fyrir hægan vind og einhverja skúri í Vestmannaeyjum.

„Það gætu verið að falla einhverjir skúrir líka norðantil, þá sérstaklega í kringum Tröllaskagann. Á föstudaginn og laugardaginn snýst þetta í ákveðna Norðanátt og þá kólnar aðeins hjá okkur. Þá verður skýjað fyrir norðan og er von á einhverjum skúrum sunnan og vestan,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Hún segir að á höfuðborgarsvæðinu sé von á því að það verði einhver rigning alla daga vikunnar þótt það verði ekki samfellt úrhelli.

Varðandi verslunarmannahelgina og þjóðhátíð í Vestmannaeyjum segir Birta: „Það er bara komin spá fyrir laugardaginn. Í Vestmannaeyjum er útlit fyrir hægan vind og það gæti verið einhver smá væta en ekki mikil. Það er líklegt að skýin brotni upp inn á milli. Það er því útlit fyrir ágætis veður.“

Samkvæmt langtímaspá Yr.no er útlit fyrir að veðrið í Vestmannaeyjum verði svipað því sem Birta lýsir alla helgina. Lítill vindur, skýjað og einhver væta. Mestu úrkomunni er spáð seinni part sunnudags eða 2,1 mm. Fer svo að draga aðeins úr rigningunni með kvöldinu en vindurinn gæti farið upp í 8 metra á sekúndu. 

Sjá veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert