Gengið um auðnir öræfanna

Lagt upp frá Drekagili vestur yfir Dyngjufjöll í Öskju
Lagt upp frá Drekagili vestur yfir Dyngjufjöll í Öskju Mynd/Ingvar Teitsson

Mikilfenglegt sjónarspil í andstæðum náttúrunnar þar sem svartir sandar mæta gróðurvinum, öræfi blasa við út sjóndeildarhringinn, drottning íslenskra fjalla rís upp úr hraunbreiðu og sjálft Öskjuvatn í öllu sínu veldi eru meðal þess sem göngufólk getur gert ráð fyrir að upplifa á göngu um Öskjuveg. Það er gönguleið sem liggur frá Herðubreiðarlindum að Drekagili, áfram að Dyngjufjöllum og niður í Bárðardal.

Hingað til hafa tiltölulega fáar gönguleiðir borið hitann og þungann  af vaxandi ferðamannastraumi, bæði erlendum og innlendum, þótt margar aðrar séu aðgengilegar og ekki síður í fallegu umhverfi. Mbl.is ákvað að skoða nokkr­ar aðrar fjöldaga göngu­leiðir sem eru í boði hér á landi og ræða við göngu­fólk sem þekk­ir vel til leiðanna til að segja frá þeim. Byrjað var á leiðinni frá Sveinst­indi um Skæl­inga og Strúts­stíg, en í dag er sagt frá Öskjuvegi.

Öskjuvegur hefst við Herðubreiðarlindir og liggur um Bræðrafell, suður í …
Öskjuvegur hefst við Herðubreiðarlindir og liggur um Bræðrafell, suður í Dreka og þaðan austur í Dyngjufjöll, áður en farið er norðvestur í Botna og niður í Svartárkot. Mynd/mbl.is

Rætt var við tvo félaga í Ferðafélagi Akureyrar, þá Ingvar Teitsson formann gönguleiðanefndar og farastjóra og Frímann Guðmundsson í ferðanefnd félagsins, en þeir þekkja báðir vel til staðarhátta og hafa reglulega gengið um svæðið. Þá var Ingvar einn af upphafsmönnum þess að farið var í uppbyggingu leiðarinnar.

90-100 kílómetrar á fimm dögum

Öskjuvegurinn í þeirri mynd sem hann er í dag varð til á milli 1990 og 1996, en þá kom hugmyndin um langan skipulagðan gönguveg til, sem og að skálarnir við Dyngjufell og í Suðurárbotnum voru byggðir. Með því varð til gönguleið sem er í heild fimm dagar, eða um 90-100 kílómetrar, en einnig er hægt að fara annað hvort tveggja eða þriggja daga leggi sem eru þá talsvert styttri. Það er Ferðafélag Akureyrar sem á skálana á svæðinu og kom upp leiðinni og fer félagið árlega í nokkrar ferðir á svæðið.

Gönguleiðin hefst í Herðubreiðarlindum við Þorsteinsskála, en til að komast þangað þarf að fara á jeppa eða með sérstökum rútum. Ekki eru í boði skipulegar dag- eða vikulegar ferðir þangað, þannig að göngumenn þurfa að huga vel sjálfir að flutningum á mannskap og bílum. Frímann segir að jafnan opnist svæðið um miðjan júlí og haldist opið út ágúst og eitthvað inn í september. Þetta sé þó talsvert hátt uppi og þannig séu aðstæður fyrir göngu núna ekkert sérstakar, en hann spáir því að svæðið verði orðið mjög gott eftir um hálfan mánuð. Ef göngufólk vill taka styttri leið er einnig hægt að taka tveggja daga ferð sem hefst í Herðubreiðarlindum, en þá endar hún í Dreka.

Fossinn Gáski í Grafarlandaá. Herðubreið í baksýn.
Fossinn Gáski í Grafarlandaá. Herðubreið í baksýn. Mynd/Ingvar Teitsson

Gengið kringum drottningu íslenskra fjalla

Herðubreiðarlindir eru gróðurvin við Ódáðahraun og rætur Herðubreiðar, sem þekkt er sem drottning íslenskra fjalla. Gengið er í vesturátt, hálfhring umhverfis fjallið, í átt að Bræðrafelli, þar sem annan skála er að finna. Þeir sem hafa komið á svæðið vita hversu tignarleg Herðubreið er, en hún rís um 1.100 metra upp úr hrauninu og varð til við gos undir jökli. Frá svæðinu er gífurlega víðfeðmt, en Frímann segir að þaðan geti sést alla leið í Vopnafjörð, Vatnajökul og svo á fjöllin í vesturátt. Leiðin er um 17 kílómetrar og hækkar um tæplega 250 metra jafnt og þétt yfir daginn.

Víti í Öskju
Víti í Öskju Mynd/Ingvar Teitsson

Á öðrum degi er svo gengið frá Bræðrafelli að Dreka í Drekagili, en Frímann segir svæðið mjög vannýtt þar sem lítið er um göngufólk. Þar sé þó að finna mjög fallega og fjölbreytta náttúru með hraunmyndum og sandsteini. Gengið er um 21 kílómetra þennan dag og er gangan nokkuð jöfn, þótt á einum stað sé hækkun upp á um 100 metra á stuttum kafla. Samtals hækkun dagsins er um 50 metrar.

„Fuðulegasti staðurinn á þessu furðulega landi“

Margir bæta við degi í Dreka og ganga t.d. að Öskjuvatni og Víti, en Frímann segir að við Öskju birtist manni ógleymanlegt útsýni í fyrsta skiptið. „Það er nauðsynlegt að eyða tíma í Öskju, fara yfir fjöllin þar og niður að Öskjuvatni og Víti. Þetta er toppurinn á ferðinni,“ segir Frímann.  Á heimasíðu Ferðafélags Akureyrar er vitnað í Pálma Hannesson, fyrrum rektor í MR, sem lýsti staðnum sem einum stórbrotnasta stað jarðarinnar. „Ég hef það fyrir satt, að Askja sé furðulegasti staðurinn á þessu furðulega landi. Og ég þykist vita, að á allri jörðinni séu fáir staðir jafn stórbrotnir og ægilegir og hún, og ég veit, að hver sá, sem eitt sinn hefur hana augum litið, gleymir henni aldrei meir,“ er haft eftir Pálma.

Þrjár hressar að baða sig í Víti í Öskju
Þrjár hressar að baða sig í Víti í Öskju Mynd/Ingvar Teitsson

Reglulegar rútuferðir eru að Öskju og Dreka svo auðvelt er að komast þangað t.d. frá Mývatni ef göngufólk hefur ekki yfir að búa eigin bifreiðum til að koma sér á staðinn. Aftur á móti þarf að huga vel að því að koma sér af endastaðnum sem er í Bárðardal.

Á Jónsskarði í Dyngjufjöllum Vegklettur
Á Jónsskarði í Dyngjufjöllum Vegklettur Mynd/Ingvar Teitsson

Frá Dreka hefst svo þriðji dagur hinnar hefðbundnu göngu, eða fyrsti dagur þriggja daga leiðarinnar. Liggur gönguleiðin aðeins norðan við Öskjuvatn að Dyngjufjöllum þar sem stefnan er sett í norðvestur í átt að skálanum Dyngjufelli í Dyngjufjalladal. Leiðin er um 20 kílómetrar, en ef ákveðið er að fara fyrst að Öskjuvatni og Víti getur hún orðið allt að 28 kílómetrar. Dyngjufellsskálinn var byggður árið 1993, en á sama tíma var hafin vinna við að stika Öskjuveg allan. Kláraðist það verk um 1995 og hefur Ferðafélag Akureyrar síðan haldið leiðinni við.

Á leið vestur af Dyngjufjöllum niður í Dyngjufjalladal
Á leið vestur af Dyngjufjöllum niður í Dyngjufjalladal Mynd/Ingvar Teitsson

Heil á kemur upp úr jörðinni „og allt verður grænt.“

Fjórða dagsleið liggur í skálann Botna í Suðurárbotnum, en þar var reistur skáli árið 1996 og með því kláraðist formlega uppbyggingarverkefnið með Öskjuveginn. Liggur leiðin um sanda og hraun þar sem lítill gróður er. Frímann segir að það sé sérstök upplifun að klára dagleiðina og koma í Suðurárbotna. „Þegar þú ert búinn að labba í nokkra daga og kemur niður í Suðurárbotna og þegar þú ert um 500 metra frá kofanum breytir landið um svip,“ segir hann og bætir við að þar komi næstum heil á upp úr jörðinni „og allt verður grænt.“ Segir hann þetta mikið sjónarspil þegar maður hafi gengið alla leiðina í öræfunum og söndunum.  „Þá upplifir maður þetta svo sterkt,“ segir Frímann. Leiðin er um 21 kílómetri og er gengið undan fæti alla leið og er heildarlækkun um 200 metrar.

Gengið fyrir upptök Bæjarlækjar í Suðurárbotnum
Gengið fyrir upptök Bæjarlækjar í Suðurárbotnum Mynd/Ingvar Teitsson

Fimmti og síðasti göngudagurinn liggur frá Botna að Svartárkoti í Bárðardal, en það er innsti bærinn í dalnum. Leiðin sjálf er um 14 kílómetrar og er gengið niður á við. Á endastað þurfa göngumenn að huga sjálfir að faratækjum til að komast heim á leið, en engar skipulagðar ferðir eru þangað.

Við rúst gamals leitarmannakofa (Botnakofa) í Suðurárbotnum
Við rúst gamals leitarmannakofa (Botnakofa) í Suðurárbotnum Mynd/Ingvar Teitsson

Askjan og andstæður náttúrunnar standa upp úr

Aðspurður um helsta aðdráttarafl leiðarinnar segja bæði Frímann og Ingvar að Askjan sjálf sé toppurinn. Þá sé víðfeðmi og gífurlegar andstæður náttúrunnar þar sem sandar og auðnir mæta gróðurvinum eitthvað sem enginn muni gleyma. Eins og með margar aðrar leiðir sem mbl.is hefur fjallað um og mun segja frá á næstu dögum segja þeir að göngufólk geti almennt gert ráð fyrir því að  vera eitt í auðnunum og upplifa þannig að hitta engan annan hóp fólks allan daginn. Þetta eigi þó ekki við í kringum Öskju og Dreka, en almennt gangi hópar á þessari leið í sömu átt og fáir verði á ferli manns.

Á bökkum Suðurár skammt frá Stóruflesju. Kollóttadyngja og Herðubreið í …
Á bökkum Suðurár skammt frá Stóruflesju. Kollóttadyngja og Herðubreið í baksýn Mynd/Ingvar Teitsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert