Reyndi fjársvik með íkveikju

Slökkvilið að störfum eftir brunann árið 2011 á Patreksfirði.
Slökkvilið að störfum eftir brunann árið 2011 á Patreksfirði. mbl.is

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi karlmann í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa ákveðið að svíkja út tryggingabætur fyrir timburhús á Patreksfirði og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki með því að kveikja í húsnæðinu aðfaranótt mánudagsins 25. júlí 2011, þannig að það brann til kaldra kola og gjöreyðilagðist.

Fyrir dómi kom fram að maðurinn hafi talið að hann gæti fengið 27 milljónir króna frá tryggingafélagi sínu, en hann ætlaði að nýta peningana til þess að kaupa sér annað hús. Meðal þess sem var lagt fram var bréf þar sem maðurinn áformar að kaupa tiltekna fasteign og aftan á skjalið er handskrifað eftirfarandi:

„Við tökum 7 millz í lán. Við fáum 3 millz í styrk. Þessar 3 millz fara í að borga uppi þessar 7 millz þannig þá skuldum við 4 millz. Svo kviknar í húsinu og þá borgum við tessar 4 sem eru eftir og þá eigum við húsið skuldlaust og 4 millz auka.“

Frétt mbl.is: Kveikt í húsi á Patreksfirði

Upp komst um málið strax í kjölfar þess að húsið brann og var því ljóst að ekki var svigrúm til að gera kröfu á tryggingafélagið áður en ákærða var ljóst að hann var grunaður um verknaðinn. Var hann ákærður fyrir tilraunabrot og þótti það sannað að hann hafi framkvæmt íkveikjuna með þeim ásetningi að svíkja bætur út úr tryggingafélaginu.

Eigandi fasteignarinnar var einnig ákærður í málinu en hann var sýknaður. Viðkomandi var skráður eigandi hússins að beiðni mannsins sem kveikti í húsinu. Fyrir dómi neitaði eigandi hússins að hafa vitað að ætlunin með íkveikjunni hafi verið að svíkja fé út úr tryggingafélaginu, sem var andstætt framburði hans hjá lögreglu. Hann hafi þó keypt bensínið sem notað var við íkveikjuna, en dómurinn taldi ósannað að hann hafi vitað að ætlunin hafi verið að fremja verknaðinn sem hinn maðurinn var dæmdur fyrir.

Auk þess að sæta 12 mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar var manninum gert að greiða skaðabætur að fjárhæð 165.865 kr. með dráttarvöxtum, 250 þúsund kr. vegna þóknunar lögmanns bótakrefjenda og sakarkostnað að fjárhæð 1.629.242 kr.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda eiganda hússins, 1,3 milljónir kr. og útlagður verjandans, 32.500 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

Hér má finna dóminn í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert