„Sýna yndislegu starfsfólki þakklæti“

Frosti og Iðunn á Vökudeildinni á annarri myndinni. Iðunn hefur …
Frosti og Iðunn á Vökudeildinni á annarri myndinni. Iðunn hefur braggast vel eins og sést á hinni myndinni. Skjáskot Hlaupastyrkur

Frosti Ólafsson ætlar að hlaupa 42 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst og safna áheitum til styrktar vökudeild Landspítalans. „Ég hleyp fyrir vökudeildina sem tekur á móti börnum sem fæðast fyrir tímann og þeim sem fæðast við erfiða heilsu,“ segir Frosti við mbl.is. Málið er Frosta kært en hann og konan hans, Ásdís Ólafsdóttir, eignuðust dóttur sem fæddist tíu vikum fyrir tímann.

Við eignuðumst dóttur, Iðunni Jóhönnu, síðasta haust sem var rétt rúmlega kíló þegar hún fæddist. Hún var á vökudeildinni fyrstu tvo mánuðina af lífi sínu. Það sem við tökum fyrst og fremst úr því er framúrskarandi þjónusta starfsfólks og eins góður aðbúnaður og hægt er að biðja um. Okkur finnst samhliða mikilvægt að stuðla að því að svo geti verið áfram og sýna þakklæti okkar í verki til þessa yndislega fólks sem þar vinnur.“

Frosti og Ásdís ætla að leggja þúsund krónur á móti fyrir hverjar 10 þúsund krónur sem safnast. „Það er planið og alltaf ágætt að koma með framlag sjálfur. Ég gleymdi að setja hámark ef það kæmi auðjöfur sem að hefði sérstakan áhuga á málefninu og myndi leggja inn nokkrar milljónir. Þá væri ég í smá bobba en myndi neyðast til að taka lán fyrir því!“

Hann segir að allt hafi gengið stóráfallalaust síðan Iðunn útskrifaðist af vökudeildinni. „Það er oft aðeins meiri umsýsla sem fylgir því að eignast fyrirbura. Við tökum öllu með bros á vör á meðan ekkert stórt kemur upp á.“

Hér getur fólk styrkt Frosta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert