„Nú er þetta allt á kafi í snjó“

Snjór við skálann í Hrafntinnuskerjum.
Snjór við skálann í Hrafntinnuskerjum. Ljósmynd/Siggi Harðar

„Á þessum tíma í fyrra keyrði maður á auðu alla leiðina inn í Hrafntinnusker, nema bara rétt síðasta spölinn,“ sagði Sigurður Harðarson, rafeindavirki og fjallamaður, betur þekktur sem Siggi Harðar. Hann fer oft í Hrafntinnusker til að annast viðhald á rafeindabúnaði í skála Ferðafélagsins. Sigurður var þar nýlega og tók þá meðfylgjandi mynd frá sama sjónarhorni og hann tók mynd í fyrrasumar.

Á myndunum hér neðst í fréttinni má sjá muninn á svæðinu á milli ára. Með því að færa stikuna má sjá snjóinn flettast af landinu. 

„Nú er þetta allt á kafi í snjó og allt upp í tíu metra snjódýpt. Ég sé ekki að þessi snjór fari héðan af. Ég þurfti að fara alveg niður í tveggja punda þrýsting í dekkjunum og læsa öllum hjólum til að komast upp brekkurnar. Það er eitthvað sem maður hefur ekki þurft að gera í lok júlí síðustu ár,“ sagði Sigurður og hló. Hann er á 38" breyttum Toyota Land Cruiser með mjög lágt drifhlutfall. Sigurður sagði ómögulegt að komast þetta á óbreyttum bíl.

„Það er ekki hægt að keyra af Pokahrygg og niður í Laugafell. Leiðin er alveg ófær fyrir snjó. Það er eitthvað sem maður hefur ekki séð í mörg ár og ekki á þessum árstíma,“ sagði Sigurður.

Þegar hann ók í Hrafntinnusker fór hann út í Markarfljót á gamla vaðinu. Þar sem venjulega var farið upp úr ánni voru nú 2,5 metra háar skarir. Því varð Sigurður að aka upp eftir ánni um 1,5 km til að komast upp á hinn bakkann. Þar ók hann aftur upp á snjó og á snjó alla leiðina í Hrafntinnusker. „Þetta er svolítið óvanalegt miðað við síðustu ár,“ sagði Sigurður.

Göngufólk sem átti leið um Hrafntinnusker var búið að troða slóð í snjóinn. Sigurður sagði að í lok júní hefði göngufólkið þurft að vaða snjó en nú sé hann orðinn þjappaður á gönguleiðunum.

„Þeir eru á snjó frá því að þeir koma upp í 500 metra hæð og alveg niður undir Álftavatn, alla vega ennþá,“ sagði Sigurður. Hann sagði að ferðamenn tjölduðu á snjónum í kringum skálann í Hrafntinnuskeri. Þeir hafa mokað holur þar sem þeir tjalda á sléttan snjóinn.

Skálarnir í netsambandi

Sigurður er nýbúinn að setja upp búnað til að ná GSM-merki í skála Ferðafélags Íslands í Hrafntinnuskeri og eins í skálunum í Hvanngili, Álftavatni og Emstrum. Þetta er fyrsta sumarið sem nota verður stafræna posa til að taka við kortagreiðslum því það er búið að leggja niður gömlu vélarnar sem straujuðu kortin. Því þurfti að koma skálunum í netsamband. Nýja kerfið er allt komið í gang. GSM- og Tetra-samband er slitrótt á svæðinu. Tryggustu fjarskiptin eru í gegnum VHF-endurvarpa á Háskerðingi og er alls staðar VHF-samband á svæðinu, að sögn Sigurðar.

Neyðarsendar í skálunum á Laugaveginum verða endurnýjaðir í haust. Sigurður er að sérsmíða nýju sendana. Þeir verða með þeirri nýjung að hægt verður að kveikja á og fjarstýra sendunum úr byggð. Þannig verður hægt að kalla inn í skálana.

Þessi tækni hefði sparað mikla og dýra leit á liðnum vetri. Þá hófst leit í vondu veðri að göngukonu sem ekkert hafði heyrst frá. Fjöldi leitarmanna á mörgum farartækjum fór af stað. Á meðan sat konan í mestu makindum í skálanum í Hvanngili og treysti á að staðsetningarsendir, sem hún var með, hefði sent boð um hvar hún var stödd. Sendirinn brást.

Snjómynd: 14. júlí 2015. Skáli Ferðafélags Íslands í Hrafntinnuskeri er …
Snjómynd: 14. júlí 2015. Skáli Ferðafélags Íslands í Hrafntinnuskeri er nú umlukinn snjó. Ferðamenn hafa troðið gönguleið í snjónum og tjalda ofan á holum sem þeir hafa grafið í fönnina. Allt autt: 19. ágúst 2014. Í fyrrasumar var marautt í kringum skálann í Hrafntinnuskeri og ökuleiðin þangað greiðfær jeppum. mbl.is/Siggi Harðar
19. ágúst 2014. Í fyrrasumar var marautt í kringum skálann …
19. ágúst 2014. Í fyrrasumar var marautt í kringum skálann í Hrafntinnuskeri og ökuleiðin þangað greiðfær jeppum. Ljósmynd/Siggi Harðar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert