Eldingar í sumarblíðunni

Elín segir það vekja athygli hversu mikið hægviðri hefur verið …
Elín segir það vekja athygli hversu mikið hægviðri hefur verið á landinu sl. daga. mbl.is/Styrmir Kári

Höfuðborgarbúar hafa ef til vill orðið varir vil eldingar í dag, en skilyrði fyrir þær hafa skapast víðar yfir landinu síðastliðna daga, m.a. uppi á miðhálendinu og við Reykjanestána fyrir rúmri viku.

„Við sjáum í raun alveg eldingar, oft bæði í sambandi við svona síðdegisskúri á sumrin og svo í sambandi við éljaklakka úr vestanáttum á veturna, þegar koma svona rosalegar hryðjur og það verður alveg blint af snjókomu,“ segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um fyrirbærið.

Innt eftir nýjustu fregnum af verslunarmannahelgarveðrinu segir hún útlitið aðeins hafa skánað.

„Það leit út fyrir að sunnudagurinn ætlaði að verða svolítið leiðinlegur með einhverja úrkomu,“ segir Elín, en það horfi nú til betri vegar. „Góðu fréttirnar eru þær að hann ætlar kannski heldur að hlýna loftmassinn yfir landinu á sunnudag og mánudag,“ segir hún en varar fólk við að gera sér væntingar um að hitamet falli. Ekki sé um að ræða þvílíka hlýnun.

Hún segir útlit fyrir að það verði hlýjast á suðvestanverðu landinu um helgina, eins og verið hefur, en þar verði skúrahættan jafnframt mest. „Svo annars staðar er í raun alveg þokkalegasta veður. Við erum hvergi að sjá að það verði slydda eða næturfrost eða þannig.“

Þá segir hún að þrátt fyrir mögulega skúrahættu sé ekki að sjá að hætt sé við því að tjaldbúar fari á flot.

Að sögn Elínar var hiti í byggð að meðaltali 8,82 stig í gær, 2,7 stigum undir meðaltali síðustu tíu ára. Á Akureyri er mánuðurinn 2,18 gráðum undri meðaltali áranna 1961-1930 og 3 gráðum undir meðaltali síðustu tíu ára. Hún segir útlitið fyrir 6-13 gráður fyrir norðan um helgina.

Veðurhorfur næstu daga skv. Veðurstofu Íslands:

Á fimmtudag:
Austan og norðaustan 3-8 m/s, skýjað með köflum og sums staðar skúrir á S- og V-landi. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast vestantil.

Á föstudag:
Norðlæg átt, 3-10 m/s. Skýjað fyrir norðan og súld við ströndina, en bjart með köflum syðra. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast S-lands.

Á laugardag, sunnudag og mánudag (frídagur verslunarmanna):
Norðaustlæg átt. Skýjað um landið norðanvert og súld við ströndina en bjart með köflum sunnantil. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast SV-lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert