Fjölskyldugleði á Úlfljótsvatni

Fjörug fjölskylduhátíð verður haldin á Úlfljótsvatni um verslunarmannahelgina með fjölbreyttri dagskrá. 

Meðal þess sem í boði verður um helgina er bogfimi, klifurturn, vatnasafarí, hoppukastalar, folf, varðeldar og skátasmiðjur, en einnig mun leikhópurinn Lotta mæta á svæðið. Hægt verður að kaupa sérstök dagskrárarmbönd sem gilda alla helgina og kosta 2.000 krónur, en einnig verður hægt að greiða fyrir einstaka dagskrárlið kjósi menn svo.

Þá verður einnig sérstakur bananaleikur í gangi fyrir yngstu krakkana á tjaldsvæðinu alla helgina. Í leiknum verða krakkarnir hvattir til þess að leysa hin ýmsu verkefni, til að mynda að teikna mynd af Úlfljótsvatni eða búa til blómvönd. Þegar þau hafa svo lokið 12 af 16 mögulegum verkefnum fá krakkarnir gefins litla gjöf og banana í þjónustumiðstöð.

Fullorðnir þurfa að reiða fram 1.400 krónur fyrir gistingu fyrstu nóttina á tjaldsvæðinu, 1.200 krónur fyrir aðra nótt og 1.000 krónur fyrir allar nætur eftir það. Börn yngri en 16 ára gista hins vegar án endurgjalds. Á tjaldsvæðinu verður einnig mögulegt að fá tengingu við rafmagn og kostar slíkt 1.000 krónur.

Fyrir þá sem ekki þekkja til er sérstaklega bent á að Úlfljótsvatn er fjölskyldutjaldsvæði og áhersla því lögð á kyrrð frá miðnætti. Eins er ölvun ekki leyfileg þó mönnum sé velkomið að neyta áfengis í hófi með mat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert