Hringdi 82 sinnum í 112

112 er neyðarnúmer ekki númer til þess að hringja í …
112 er neyðarnúmer ekki númer til þess að hringja í þegar maður er fullur heima. mbl.is/Árni Sæberg

Tvær konur voru handteknar á höfuðborgarsvæðinu í nótt með klukkustundar millibili fyrir ítrekað ónæði við neyðarlínu 112.  

Á þriðja tímanum í nótt var rúmlega sjötug kona handtekin á heimili sínu í austurborginni.  Hafði hún þá hringt 82 símtöl í neyðarnúmerið 112 frá miðnætti. Ekkert amaði að konunni annað en mikil ölvun.

Lögreglumenn höfðu farið á heimili hennar í millitíðinni til að fá hana til að hætta þessum hringingum án árangurs.

Á fjórða tímanum í nótt var síðan rúmlega þrítug kona handtekin í vesturborginni eftir ítrekaðar hringingar og óskir um lögregluaðstoð sem enginn fótur var fyrir. 

Lögreglumenn höfðu einnig í millitíðinni farið á heimili hennar og reynt að fá hana til að láta af þessum hringingum.

 Mál kvennanna tengjast ekkert, að sögn lögreglu. Þær voru báðar mjög ölvaðar og gista fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert