„Mér var strítt á hverjum einasta degi“

Teikning/Ingi Jensson

Harpa Lúthersdóttir hefur hug á að gefa bók sína Má ég vera memm?, sem fjallar um einelti, í alla grunnskóla landsins og hefur af því tilefni hafið söfnun á Karolina Fund til að standa undir kostnaðinum, meðal annars til þess að láta útbúa kennsluleiðbeiningar.

Söfnun Hörpu

Sagan segir frá lífi sögupersónunnar Fjólu á einu skólaári og byggist á reynslu höfundar. „Bókin er stutt útgáfa af minni reynslu, því ég lenti í einelti allan grunnskólann og bíð þess aldrei bætur,“ rifjar Harpa upp. Hún segist aldrei hafa verið skilin út undan fyrr en hún byrjaði í 1. bekk grunnskólans. „Upp úr þurru fékk ég ekki að vera með og það var ekki fyrr en í 10. bekk að ég sá til sólar. Þá byrjaði ný stelpa í skólanum, mikil skvísa, sem varð strax mjög vinsæl. Hún valdi mig og ég eignaðist mína fyrstu vinkonu í skólanum. Það var besti tíminn og við hittumst utan skóla, en það var því miður of seint. Skaðinn var skeður.“

Bregðast við einelti

Hugmynd Hörpu með bókinni er að fá börn til þess að setja sig í spor annarra barna, sem verða fyrir einelti, og hvetja þau til þess að aðstoða í slíkum tilfellum. „Sonur minn varð fyrir einelti í skóla og þá skrifaði hann bréf þar sem hann segir meðal annars: „Ég elska ykkur en þið hatið mig.“ Ég sýndi kennara hans þetta bréf og hann táraðist yfir einlægninni en ekkert breyttist, fyrr en við fluttum.“

Eineltið hefur haft skaðleg áhrif á Hörpu. „Mér var strítt á hverjum einasta degi. Ég var kaffærð í sundi, snjór settur inn á mig og í skólatöskuna mína, ég var kölluð fílamaðurinn og sagt að ég væri ógeðslega ljót. Ég var kölluð sorpa af því að það rímaði við Harpa og í stuttu máli þá fékk ég nóg. Mér finnst mjög óþægilegt að vera innan um fólk og ég gæti aldrei farið aftur í skóla. Vegna eineltisins mætti ég illa í skólann í 10. bekk og síðasti dagurinn í skólanum var besti dagur lífs míns, en síðan hef ég verið öryrki.“

Harpa segist hafa skrifað bókina til þess að vekja athygli á einelti og hvernig hægt sé að bregðast við því. „Tilgangurinn er að benda á að mikilvægt er að bregðast við einelti og þora að standa með þeim sem minna mega sín á móti öðrum,“ segir hún. „Það verður að bregðast við einelti og bókin er liður í þeirri baráttu. Það skiptir því miklu máli að sem flestir taki þátt í að styrkja verkefnið svo hægt verði að gefa öllum grunnskólum bókina.“

Harpa Lúthersdóttir með bókina sem hún vill sjá í öllum …
Harpa Lúthersdóttir með bókina sem hún vill sjá í öllum skólum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert