Metþátttaka á landsmóti UMFÍ

Það er oft fjör á landsmótum UMFÍ
Það er oft fjör á landsmótum UMFÍ mbl.isEggert

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Akureyri um verslunarmannahelgina, en þetta er í fyrsta skiptið sem mótið er haldið þar. Skráning á landsmótið hefur gengið einkar vel og stefnir í metþátttöku að þessu sinni. 

Er þetta í 18. skiptið sem unglingalandsmót UMFÍ er haldið og var stærsta mótið til þessa haldið árið 2012 á Selfossi þegar keppendur voru um 2.000 talsins. Nú stefnir hins vegar í nýtt met því skráningar eru þegar orðnar á þriðja þúsund. 

Mótið hefst næstkomandi fimmtudag með keppni í golfi og síðan rekur hver keppnisgreinin aðra yfir helgina. Í ár verður keppt í alls 29 greinum á landsmótinu og hafa þær aldrei verið fleiri.

Keppnisgreinarnar eru sem hér segir: Badminton, boccia, bogfimi, borðtennis, dans, fimleikar, frjálsíþróttir, glíma, golf, handbolti, hestaíþróttir, hjólreiðar, júdó, keila, knattspyrna, körfubolti, lyftingar, motocross, siglingar, skák, stafsetning, strandblak, sund, taekwondo, tölvuleikur og upplestrarkeppni.

Að auki er fjölbreytt afþreyingardagskrá í boði þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Allar leiðir SVA opnar

Fyrr á þessu ári var útlit fyrir engar strætósamgöngur á Akureyri í mánuð vegna manneklu. Átti akstur vagnanna þá að falla niður frá 15. júlí til 15. ágúst. Helgi Friðjónsson, verkstjóri hjá Strætisvögnum Akureyrar, segir vandann leystan. 

„Það verður allt samkvæmt áætlun og engin lokun á leiðum,“ segir Helgi í samtali við mbl.is og bendir á að samkvæmt venju verður gjaldfrjálst í alla vagna. „Svo verðum við einnig með aukabíla í kringum landsmót UMFÍ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert