Í áframhaldandi nálgunarbann

mbl.is/Kristinn

Karlmaður á Suðurlandi hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi nálgunarbann gagnvart eiginkonu sinni. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms Suðurlands þess efnis í gær.

Maðurinn var fjarlægður af heimili hjónanna vegna „ofríkis hans“ á heimili þeirra auk ofbeldis hans gagnvart eiginkonu sinni sem börn þeirra höfðu orðið vitni af. Fékk lögreglan ábendingu um þetta frá barnaverndaryfirvöldum. Parið flutti hingað til lands fyrir tveimur árum síðan.

Í skýrslutöku lýsti eiginkona hans því að undanfarna mánuði hafi hann beitt hana ítrekuðu andlegu og líkamlegu ofbeldi og nefnir sérstaklega fjögur líkamleg ofbeldisatvik sem nýlega höfðu átt sér stað. Sagði hún hann meðal annars hafa slegið hana svo hún féll í gólfið og ítrekað kýlt hana með krepptum hnefa í andlit og höfuð. Hafi hegðun hans versnað við drykkju. Er eitt barnanna þeirra sagt hafa verið hrætt við manninn eftir að hafa orðið vitni af ofbeldi og háværum rifrildum foreldranna.

Þann 11. júní var hann úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart konunni og mátti hann ekki koma nær húsi þeirra en 50 metra radíus. Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að hann hafi ítrekað brotið gegn nálgunarbanninu. Þá hafi hann einnig sent henni fjölda sms skilaboða. 

Eiginkonan hefur farið fram á skilnað frá manninum og er það mál til afgreiðslu þar. 

Var hann af þessum sökum úrskurðaður í áframhaldandi nálgunarbann næstu fimm mánuðina frá uppkvaðningu dómar Hæstaréttar í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert