Tók á móti Royal á Bessastöðum

Ólafur Ragnar Grímsson og Ségolène Royal á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson og Ségolène Royal á Bessastöðum. mbl.is/Styrmir

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók í kvöld á móti Ségolène Royal, umhverfis-, sjálfbærni- og orkumálaráðherra Frakklands, á Bessastöðum. Þar munu forsetinn og ráðherrann snæða kvöldverð, ásamt sendinefnd ráðherrans, fulltrúum íslenskra stjórnvalda og aðilum á vettvangi jarðhitanýtingar.

Royal er hér á landi til að kynna sér fjölþætta nýtingu jarðhita og undirbúa umfjöllun um hreina orku á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldinn verður í París í desember.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir m.a. að Ólafur Ragnar og Royal hafi tvisvar á þessu ári fundað um slíkt samstarf; í Abu Dhabi í janúar í tengslum við Heimsþing hreinnar orku og í París í apríl, en þá átti forseti einnig fund Francois Hollande Frakklandsforseta.

Hollande hefur þegið boð um að flytja opnunarræðu á þingi Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldið verður í Reykjavík í haust.

„Ségolène Royal mun í heimsókn sinni til Íslands eiga fundi með Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra og Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra, heimsækja orkuver, auðlindagarðinn á Reykjanesi og jarðhitafyrirtæki ásamt því að eiga viðræður við fjölda íslenskra sérfræðinga og vísindamanna,“ segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert