Veiddu skepnu aftan úr forneskju

Einn þeirra fiska sem sýndur verður á fjölskylduhátíðinni Fiskideginum mikla, sem haldin er hátíðleg í Dalvíkurbyggð helgina eftir verslunarmannahelgi, er hinn fágæti kragaháfur. Er óhætt að fullyrða að um sé að ræða einn sjaldgæfasta fisk heims enda hefur tegundin lengi verið talin útdauð.

Þrátt fyrir að afar sjaldgæft sé að sjómenn sjái eða veiði kragaháf, sem kallaður hefur verið „lifandi steingervingur“, hefur sést til tegundarinnar hér og þar um heiminn undanfarin ár. Þannig sá japanskur sjómaður einn slíkan árið 2007 og fyrr á þessu ári veiddist einn skammt frá Lakes Entrance í suðausturhluta Viktoríuríkis í Ástralíu.

Nú hefur kragaháfur veiðst hér við land og var fiskurinn fágæti fluttur í hendur Skarphéðins Ásbjörnssonar sem gegnt hefur hlutverki fiskisýningarstjóra á Fiskideginum mikla. Í ár verður það hins vegar bróðir hans Ægir sem tekur hlutverkið að sér.

„Þetta dúkkaði óvænt upp á einhverjum togara. En maðurinn sem færði mér kassann [sem hýsir fiskinn] getur hins vegar ómögulega munað hver lét hann hafa kassann. Hann benti mér á rangan mann og ég þakkaði þeim innilega fyrir sendinguna, en sá kannaðist ekkert við að hafa komið með hann,“ segir Skarphéðinn í samtali við mbl.is.

Það er því enn á huldu hver veiddi hinn sjaldgæfa kragaháf og lýsir Skarphéðinn því eftir þeim sem kom með fiskinn að landi.

Kragaháfur er nokkuð forsögulegur á að líta og er talið að tegundin hafi verið til í um 90 milljón ár. Fiskurinn er langur og mjór, höfuð hans og skrokkur minna einna helst á ál, en sporðurinn á hákarl. Í kjaftinum geymir hann svo um 300 hvassar tennur í yfir 25 röðum. Sá sem veiddist hér við land er um 1,5 metrar að lengd.

Þeir sem sækja hátíðina heim geta sem fyrr segir virt kvikindið fyrir sér en ekki stendur til að bjóða fólki upp á að smakka hann því kragaháfurinn verður stoppaður upp. 

„Eftir sýninguna verður hann settur í uppstoppun og geri ég ráð fyrir því að geyma hann sjálfur. Ætli hann verði ekki svo bara alltaf til sýnis á Fiskidaginn,“ segir Skarphéðinn og bætir við að háfurinn gæti endað sem eins konar lukkudýr hátíðarinnar.

Spurður hvort hann eigi fleiri sjaldgæfa fiska kveður Skarphéðinn já við. „Ég á annan afar sjaldgæfan og hafa bara fundist örfá stykki af honum í heiminum.“

Vísar hann þar til hins svokallaða rauðskinna sem getur orðið allt að 45 sentímetrar að lengd. Árið 1999 veiddu íslensk skip slíkan fisk þrisvar sinnum og mældist einn þeirra 32 sentímetra langur. Fékkst sá við úthafskarfaveiðar á Reykjaneshrygg og er að líkindum sá sami og varðveittur er hjá Skarphéðni.

Fyrsti fiskurinn fékkst hins vegar árið 1995 djúpt suðvestur af Reykjanesi. Annar veiddist í maí 1996 á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Rauðskinni er með fíngaddað rautt roð og breiða rák og ber hann nafn af áferð og lit roðsins. Hann hefur óvíða fundist í heimshöfunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert