Engin bóla á byggingarmarkaði

Mikill fjöldi byggingakrana er í Urriðaholti í Garðabæ um þessar …
Mikill fjöldi byggingakrana er í Urriðaholti í Garðabæ um þessar mundir. Þar mun rísa nýtt hverfi við Urriðavatn. mbl.is/Eggert

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir það fjarri lagi að tala um einhverja bólumyndun á byggingarmarkaði í dag. Þó svo að markaðurinn sé aðeins að taka við sér, þá verði að hafa í huga að hann hafi í raun helmingast eftir hrun.

„Greinin dróst gríðarlega mikið saman á árunum 2008 til 2011. Í raun helmingaðist hún. Bæði fækkaði fólki og þá áttu fyrirtækin mjög erfitt uppdráttar,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Mikið hefur verið rætt og ritað um uppbygginguna sem á sér nú stað á byggingarmarkaði. Byggingakrönum hefur fjölgað nokkuð á árinu og þá hefur borið á skorti á iðnaðarmönnum, sér í lagi til þess að sinna minni viðhaldsverkefnum.

Fjárfestingarstigið enn lágt

Bjarni Már segir að þessi auknu umsvif, sem rætt hefur verið um, séu aðallega í tengslum við húsbyggingar. „Þegar litið er til annarra stórfjárfestinga, svo sem atvinnuvegafjárfestinga, innviðafjárfestinga eða opinberra fjárfestinga, kemur í ljós að þær eru mjög litlar,“ segir hann.

Heilt yfir sé fjárfestingarstigið enn þá lágt og þyrfti það að vera mun hærra, að mati Bjarna Más.

„Þessi grein hefur líka sýnt fram á það að þegar hún þarf að vaxa, fjölga fólki og svo framvegis, þá hefur hún alveg getað gert það. Þannig að það eru ákveðnir hlutar af þessum geira sem eru heitir, en aðrir hlutar, sem snúa aðallega að stórfjárfestingum, eru ekki orðnir nægilega sprækir,“ segir hann.

Ekki hvati til að byggja minni íbúðir

Hann segir auk þess að þó svo að byggingakrönum hafi vissulega fjölgað að undanförnu, þá séu þeir enn um helmingi færri en þegar þeir voru hvað flestir á árunum 2007 til 2008.

Hann nefnir að mikil eftirspurn sé eftir litlum og meðalstórum íbúðum. Þær húsbyggingaframkvæmdir, sem eru nú í gangi, séu ekkert sérstaklega vel til þess fallnar að mæta þeirri þörf. „Hvatinn til þess að byggja þessar minni íbúðir er ekki nógu mikill. Við erum enn þá að glíma við afleiðingarnar af fimm ára tímabili þar sem mjög lítið var byggt. Það mun taka einhvern tíma að vinda ofan af þessu.“

Fréttir mbl.is:

Forðist „enn eina kollsteypuna“

„Yf­ir­drifið nóg að gera“

mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert