„Fáránlegt að þau hafi náð að gera þetta“

Leikarinn Þorsteinn Guðmundsson er meðal þeirra sem kemur fram í …
Leikarinn Þorsteinn Guðmundsson er meðal þeirra sem kemur fram í myndinni. Skjáskot/Youtube

Í sumar hefur starfað hópur á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur og Frístundamiðstöðvar Kamps sem lagt hefur áherslu á vinnu tengdri jafnrétti. Hópurinn samanstendur af 12 einstaklingum á 15. aldursári. 

„Krakkarnir eru í venjulegum vinnuskólahóp sem hafði þetta verkefni. Þau völdu sér sjálf viðvangsefni og vildu búa til heimildarmynd sem þau gætu deilt með jafnöldrum sínum,“ segir Hrefna Þórarinsdóttir, annar leiðbeinanda krakkanna, við mbl.is. „Myndin er algjörlega þeirra, öll vinnan á bak við hana og allt sem þurfti að gera. Það er í raun fáránlegt að þau hafi náð að gera þetta.

Hópurinn setti saman stórskemmtilega heimildarmynd um jafnrétti og naut aðstoðar þekktra einstaklinga á borð við Úlf Úlf, Sölku Sól, Björgvin Franz, Boga Ágústsson, Steiney Skúla, Frikka Dór, Gauta Þeyr og svo mætti lengi telja. Að ógleymdum erlendum ferðamönnum.

Í myndinni reyna þessir einstaklingar að útskýra jafnrétti og svara spurningum sem taka á jafnréttismálum í samfélaginu.

Hrefna segir krakkana hafa unnið þrekvirki en myndin er tekin og sett saman á vikutímabili og gefur góða sýn hvað unglingar eru færir um að gera ef þeir fá tækifæri til. „Þau byrjuðu á hugmyndavinnu sem tók nokkra daga. Á mánudaginn í síðustu viku byrjuðu þau að taka upp og unnu þetta á einni viku. Mér finnst þetta góð lýsing á því hversu öflugir unglingar eru og hversu mikilvægt er að finna starf fyrir unglinga þar sem þeir fá að virkja hæfileika sína.“

Hópurinn stóð fyrir foreldrafrumsýningu í gær og Hrefna segir alla hafa verið ánægða með verkið. „Allir foreldrarnir voru ákaflega ánægðir.“

Hér að neðan má sjá myndina í heild sinni.

Krakkarnir við frumsýninguna í gær. Einn úr hópnum komst ekki.
Krakkarnir við frumsýninguna í gær. Einn úr hópnum komst ekki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert