Kynnti sér starfsemi CRI

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Ségolène Royal orku- …
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Ségolène Royal orku- og umhverfisráðherra Frakklands heilsa KC Tran, forstjóra Carbon Recycling International við komuna í verksmiðju CRI í Svartsengi. Ljósmynd/Guðmundur hjá Nærmynd

Ségolène Royal, orku- og umhverfisráðherra Frakklands, heimsótti í dag verksmiðju Carbon Recycling International (CRI) í Svartsengi, í fylgd Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Carbon Recycling International en Royal er stödd hér á landi til að kynna sér nýtingu jarðhita og annarra hreinna orkugjafa.

KC Tran, forstjóri CRI, kynnti ráðherrunum og fylgdarliði meginþætti í tækni verksmiðjunnar, sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum þar sem koltvísýringur er hagnýttur til framleiðslu á fljótandi eldsneyti; metanóli.

„Það er okkur heiður að taka á móti  Ségolène Royal, en hún hefur nýlega beitt sér fyrir róttækum breytingum á löggjöf um orkumál í Frakklandi. Frönsk stjórnvöld ætla að byggja vöxt efnahagslífsins á endurnýtingu og -vinnslu, með endurnýjanlegri orku og miklum samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda í iðnaði og samgöngum. Við tökum þessari stefnu fagnandi, þar sem tæknin sem þróuð hefur verið í Svartsengi mun í framtíðinni nýtast til orkuskipta í samgöngum víðar en á Íslandi,“ er haft eftir KC Tran í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert