Skíðaferð haldin um hásumar

Vetur konungur ríkir enn í Drekagili.
Vetur konungur ríkir enn í Drekagili. mbl.is/Sigurður Erlingsson

Ferðafélag Akureyrar hefur ákveðið að bjóða fólki upp á skíðaferð um næstu helgi og segir formaður félagsins, Hilmar Antonsson, það afar óvenjulegt enda mitt sumar.

„Þessi hugmynd kom vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru. Það fór þangað frá okkur fólk nýverið á skíðum og fannst alveg dásamlegt enda nægur snjór og fínt rennsli,“ segir Hilmar í samtali við mbl.is. Ferðinni er heitið að Öskju og verður lagt af stað klukkan 17 næstkomandi föstudag, en gist verður í skálanum Dreka.

Morguninn eftir verður síðan ekið með hópinn upp á topp Öskju. Verða þá skíðin dregin fram og gengið inn að Víti og síðan Öskjuvatni.

„Þetta er nú svolítið stuttur fyrirvari, svo ég veit ekki alveg hvernig mætingin verður. En það er þó engu að síður gaman að geta boðið upp á skíðaferð um hásumar,“ segir Hilmar og bendir á að Öskjuvatn sé enn ísilagt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert