Spítalinn háður gjafafé til framkvæmda

Guðmundur og fjölskylda fyrir utan Guðmundarstofu.
Guðmundur og fjölskylda fyrir utan Guðmundarstofu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Þetta hefst allt fyrir fjórum árum með því að ég höfuðkúpubrotna,“ segir Guðmundur Hafþórsson, sem safnaði 1,7 milljónum króna til styrktar Lífs styrktarfélags með sólarhringssundi 26. og 27. júní í fyrra.

Í dag var Guðmundarstofa opnuð á kvennadeild Landspítalans, en herbergið var innréttað fyrir fé sem Guðmundur safnaði. Tvær aðrar stofur verða innréttaðar fyrir styrktarfé Guðmundar.

Guðmundur höfuðkúpubrotnaði eftir högg sem hann varð fyrir í miðborg Reykjavíkur árið 2011. „Þá var mér sagt að ég þyrfti að gleyma því að hugsa um afreksíþróttir eða annað, ég væri bara á núllpunkti,“ segir Guðmundur, en hann er afreksmaður í sundíþróttum. „Ég mátti ekki hugsa um ferilinn minn í endurhæfingunni. Það bjargaði hins vegar lífi mínu að hafa verið í góðu formi fyrir, fyrir utan auðvitað allt fólkið sem sá um mig á spítalanum.“

Gekk erfiðlega að synda í klukkutíma

Ári eftir árásina ber Guðmundur upp þessa hugmynd, að synda í sólarhring samfleytt, enda þá kominn í tiltölulega gott form aftur. „Ég segi við pabba að ég ætli mér að synda í sólarhring. Hann hló að mér og spurði hvort ég vildi ekki fyrst prófa að synda í klukkutíma.“

Það gekk ekki vel. „Líkaminn brást ekki vel við svona löngu sundi. Ekki þarna allavega, ári eftir árásina. Ég setti mér samt það markmið að synda til góð með því að synda í sólarhring. Þá var hugsunin að þakka spítalanum fyrir með því að safna fyrir gott málefni.“

Hjartsláttur nýfæddrar dóttur upp úr öllu valdi

Guðmundur hélt áfram baráttu sinni við að komast í betra form. „Svo í janúar 2014 fæðist okkur Karen önnur stelpa og við endum á að vera í 10 daga með hana hérna á vökudeild.“ Dætur Guðmundar og Karenar heita Heiða Dögg, bráðum átta ára, og Helena Rut. Þegar útskrifa átti Helenu var hjartslátturinn hjá henni upp úr öllu valdi, en hún hafði verið með hita þegar hún fæddist. Í ljós kom að hún er með auka rás í hjartanu. Við þær fréttir létti Guðmundi, því hann vissi að hægt væri að meðhöndla slíkan kvilla.

„Þarna kviknaði hugmyndin að gera eitthvað fyrir Barnaspítalann. Við fundum fyrir því hvað það mætti bæta aðstöðuna fyrir fjölskyldur, en líka hvað ástandið væri í rauninni gott, þannig séð. Við fengum svo góða hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, og okkur leið svo vel. VIð vildum létta undir með þeim þannig að foreldrar væru kannski afslappaðir í samskiptum og að það þyrfti ekki að hugsa um þá, í ofanálag við öll veiku börnin,“ sagði Guðmundur.

Hann fór því á fund með yfirmönnum spítalans og spurði hvað hann gæti gert. Þar fékk hann þær upplýsingar að tala við Líf styrktarfélag, sem sér um kvennadeildina.

Afraksturinn er eins og áður segir Guðmundarstofa, vel útbúin stofa fyrir mæður með barn á vökudeild, auk tveggja annarra stofa sem eftir á að útbúa.

Spítalinn háður gjafafé

Helga Sigurðardóttir, yfirljósmóðir á meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans, segir að í þessu árferði þurfi spítalinn mikið að reiða sig á gjafafé til framkvæmda.

„Rekstrarfé til deildarinnar er mjög naumt skammtað. Rekstur meðgöngu- og sængurlegudeildar er aðallega launakostnaður og almennur rekstur deildarinnar, ekki lyfjakostnaður. Það hefur í raun og veru verið þannig að ég hafi þurft að sækja um styrki til alls, upphaflega til að klára að gera deildina upp, sem var gert árið 2011 þegar ég tók við sem deildarstjóri,“ sagði Helga við opnun Guðmundarstofu í dag. Við stærri framkvæmdir á húsnæði deildarinnar leggur ríkið fram helming fjárins á móti Líf styrktarsjóði.

Hún segir að rúmdýnur hafi verið slitnar og ekki verið til fjármagn til að endurnýja þær. „Ég fékk því styrk til að kaupa fimm nýjar rúmdýnur. Svo fékk ég styrk til að kaupa blóðþrýstingsmæla og eiginlega öll tæki sem manni finnst eiga að vera partur af rekstrinum,“ sagði Helga.

„Svona er þetta öll árin, ég var að leggja inn umsókn um styrk fyrir fjórum nýjum blóðþrýstingsmælum til Lífs styrktarfélags og vona að það verði afgreitt hratt og vel. Annars er maður bara í vandræðum og bíður eftir næstu fjárlögum, sem hafa ekki verið glæsileg.“

Styrkir á borð við þann sem Guðmundur safnaði fyrir deildina koma sér því mjög vel. „Í raun og veru er þetta bara orðinn hluti af rekstri deilda, fé frá velunnurum,“ segir Helga. Auk Guðmundarstofu er verið að gera upp anddyri kvennadeildarinnar fyrir styrktarfé. „Við reiðum okkur á það til að hafa hlutina í lagi,“ segir Helga.

Tók slaginn fyrst tíu tíma sund drap hann ekki

Á myndum sem sýndar voru af sundinu og frásögn fólksins sem studdi Guðmund í sundinu var útlit fyrir að hann hefði getað synt annan sólarhring. Guðmundur hlær innilega þegar blaðamaður spyr hvort sú hafi verið raunin.

„Ég væri auðvitað að ljúga ef ég segði að þetta væri skítlétt. Þetta er ekki eitthvað sem maður bara stekkur út í og gerir. Það fór mikill tími í að æfa fyrir þetta.“

Lengsta sundið sem Guðmundur synti í undirbúningnum var 10 tíma sund. „Þegar ég sá að tíu tímarnir drápu mig ekki þá sá ég fram á að þetta yrði ekki eitthvað stórmál.“

Hann segir að tvennt hafi þurft að liggja fyrir þegar hann tækist á við sundið. Annars vegar þyrfti að vera gott veður, hins vegar að það væri fólk á bakkanum og með honum í sundlauginni allan tímann.

Leiddist afskaplega fyrstu tvo tímana

„Í júní í fyrra voru þessir tveir dagar sennilega þeir bestu allt sumarið. Þegar ég var spurður hvað var erfiðast í sundinu þá var það að þegar ég var búinn með svona tvo eða þrjá tíma af sundinu, þegar ég var nýbyrjaður, þá var enginn í sundi. Fólk var að vinna og laugin var tóm. Þá leiddist mér alveg gríðarlega. Ég var ekkert þreyttur líkamlega, en mér leiddist.“

Upp úr klukkan fjögur á föstudeginum hafi sundsókn farið að glæðast. „Um nóttina var fólk á bakkanum sem kom bara til að fylgjast með. Það var tónlist á bakkanum, fólk að spjalla og stökkva ofan í og synda, alla nóttina, og stemning allan tímann. Þetta var enginn skemmtistaður en þegar ég stoppaði í þessar fimm mínútur á klukkutíma fresti þá var stemning. Þetta var því aldrei erfitt þannig séð í huganum,“ segir Guðmundur.

„Þetta var stórkostleg upplifun og þakklæti mitt fer til allra sem voru með mér, og til Lífs styrktarfélags. Síðast en ekki síst þakka ég fólkinu sem lagði peninga í þessa söfnun.“ Þar sem við Guðmundur sitjum í nýopnaðri Guðmundarstofu sé ég að hann skiptir örlítið um gír.

Sorglegt að einstaklingar þurfi að fjármagna spítalann

„Það er að vissu leyti mjög sorglegt að einstaklingar þurfi að koma inn og aðstoða svona stofnun eins og spítalinn okkar er. Við erum að horfa á að læknar og hjúkrunarfræðingar fóru í verkfall og það er allt í háaloft. Svo horfir maður á útgerðarfélögin og bankana sem skila milljörðum í hagnað. Ef þessi stóru fyrirtæki myndu bara setja nokkrar prósentur af þessum hagnaði í svona mikilvæga stofnun eins og spítalinn okkar er, þá værum við að sjá svo miklu betra heilbrigðiskerfi,“ segir Guðmundur. Allur góðvilji sem fyrirtækin fengju yrði svo miklu miklu meira, og við gætum öll hagnast á þessum hagnaði.“

Næstu skref hjá Guðmundi og fjölskyldu verða flutningur til Danmerkur, þar sem hann hefur verið ráðinn sundþjálfari. „Líf mitt hefur meira og minna verið í kringum sundið. Eftir að vera að þjálfa hér á Íslandi og í Kanada þá tók við smá rólegur tími í þessu. Eftir sundið byrjaði ég með skriðsundskennslu fyrir fullorðna og þjálfarahungrið varð meira og meira þannig að ég fór að senda út ferilskrár til Danmerkur og Kanada.“ Kallið kom svo frá Gladsaxe, bæ rétt fyrir utan Kaupmannahöfn.

„Þar verð ég annar tveggja þjálfara sem sjá um úrvalshóp bæði yngri og eldri sundmanna. Þar tekur við eins árs samningur sem verður vonandi framlengdur til 2020,“ segir Guðmundur. „Við ætlum okkur stóra hluti fram að Ólympíuleikunum 2020.

Guðmundarstofu er ætlað að vera heimilislegri en spítalanum almennt. Litir …
Guðmundarstofu er ætlað að vera heimilislegri en spítalanum almennt. Litir eru þægilegir og róandi myndir á veggjum. Guðmundur lagði sjálfur til að sjónvarpi væri komið fyrir í herberginu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Merking Guðmundarstofu. Þar geta konur sem eiga börn á vökudeild …
Merking Guðmundarstofu. Þar geta konur sem eiga börn á vökudeild dvalið, en vökudeildin er steinsnar frá stofunni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Helga Sigurðardóttir.
Helga Sigurðardóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Guðmundur og fjölskylda í hinni nýopnuðu Guðmundarstofu.
Guðmundur og fjölskylda í hinni nýopnuðu Guðmundarstofu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert