Vilji til frekara samstarfs

Frá undirrituninni í dag.
Frá undirrituninni í dag. Ljósmynd/Ingvar

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Ségolène Royal, orku- og umhverfisráðherra Frakklands, áttu í dag hádegisverðarfund í Bláa lóninu. Var þetta í þriðja skiptið sem ráðherrarnir funda, en fyrri fundir voru haldnir í París.

Fyrir fundinn voru ráðherrarnir viðstaddir undirritun á samstarfssamningi milli íslensku og frönsku jarðhitaklasanna. Þar er kveðið á um vilja til eflingar á samstarfi fyrirtækja í löndunum tveimur á sviði jarðhitamála, að því er fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins.

Á fundi ráðherranna kom fram vilji þeirra beggja til að styðja við enn frekari samstarf íslenskra og franskra fyrirtækja á sviði jarðvarmanýtingar. Hafa frönsk stjórnvöld sýnt jarðhitanýtingu aukinn áhuga að undanförnu, einkum á sviði húshitunar. Ríkjaráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu Þjóðanna verður haldin í París í desember n.k.

Munu þá Ísland og Frakkland hafa frumkvæði um stofnun samstöðuhóps stuðningsríkja jarðhitans, eða „Global Geothermal Alliance,“ sem þar verður kynnt formlega. 

Eftir hádegi sóttu ráðherrarnir fyrirtæki innan Auðlindagarðsins, sem eiga það sammerkt að nýta jarðvarmann frá virkjunum HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi, heim. 

Heimsókn Royal lýkur í kvöld með kvöldverði í boði iðnaðar- og viðskiptaráðherra henni til heiðurs.

Ráðherrarnir við Bláa lónið.
Ráðherrarnir við Bláa lónið. Ljósmynd/Ingvar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert