1250 krónum ódýrara að fara norður

Neytendahegðun Evrópubúa hefur áhrif á Íslendinga.
Neytendahegðun Evrópubúa hefur áhrif á Íslendinga. mbl.is/Sigurður Bogi

Verð fyrir lítra af dísilolíu er nú komið undir 200 krónur, eða rúmar 199 krónur á bensínstöðvum Orkunnar, Atlantsolíu og ÓB. Hugi Hreiðarsson markaðsstjóri Atlantsolíu segir í samtali við mbl.is að 38 krónum muni á verðinu eins og það er núna miðað við sama dag á síðasta ári.

„Til að mynda er ég að keyra til Akureyrar núna frá Reykjavík, sem eru í kringum 400 kílómetrar. Það er því 1.250 krónum ódýrara fyrir mig að keyra þangað núna heldur en það var í fyrra,“ segir Hugi.

Til að setja muninn í frekara samhengi segir hann að vænta megi þess að um þrjú þúsund fjölskyldur á jafnmörgum bílum muni fara sömu leið frá Reykjavík til Akureyrar. „Þá erum við að tala um að minnsta kosti fjögurra milljóna króna sparnað. Það skiptir því þjóðfélagið allt mjög miklu máli að eldsneytisverð sé að lækka.“

Neytendur í Evrópu hafa áhrif á íslensk verð

Hann tekur þó fram að ógerningur sé að spá fyrir um framhaldið. „Það eru búnar að vera miklar sveiflur í þessu en að jafnaði lækkar verð dísilolíu á þessum tíma. Í raun mætti tala um árstíðabundna lækkun í þessu sambandi, rétt eins og það er árstíðabundin hækkun á sumrin.“

Hugi segir þær eiga rætur sínar að rekja til neytenda í Evrópu. „Tími ferðalaga Evrópubúa er að líða undir lok um þessar mundir þar sem stutt er í að skólar fari að hefjast aftur. Svo má búast við hækkun í haust þegar þeir fara að kynda húsin sín. Ekkert er þó algilt í þessum efnum.“

Í kringum 20 króna munur er á verði díselolíu og 95 oktana bensíns, en díselolían hefur um nokkurt skeið verið dýrari kosturinn. „Fram til vorsins 2007 var díselolían alltaf töluvert ódýrari en svo breyttist það og olían fór að verða dýrari. Þá var skýringin meðal annars sú að verið var að taka í notkun gríðarlegan flota af skipum knúnum dísilolíu fyrir flutninga frá Kína til Bandaríkjanna og Evrópu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert