Fordæma málflutning Tyrkja

Kúrdi sinnir sólblómauppskeru í bænum Sulaimaniyah.
Kúrdi sinnir sólblómauppskeru í bænum Sulaimaniyah. AFP

Samtök hernaðarandstæðinga segja málatilbúnað Tyrklandsstjórnar fáránlegan, en hún geri nú árásir gegn Kúrdum innan og utan landamæra sinna undir yfirskyni stríðs gegn hryðjuverkum og sveitum Ríkis íslam.

Samtökin segja markmiðið með árásunum að berja niður eðlilegar kröfur kúrdnesku þjóðarinnar um sjálfsákvörðunarrétt og stofnun eigin ríkis. Þau segja Nató-ríki hafa lagt blessun sína yfir málflutning tyrkneskra stjórnvalda og minna á kröfu sína að Ísland gangi úr Nató og standi utan allra hernaðarbandalaga.

Ályktun sem stjórn Samtaka hernaðarandstæðinga samþykkti í dag:

Árásir á Kúrda og ábyrgð Íslands

Miðausturlandastríðið sem staðið hefur sleitulítið frá innrás
Bandaríkjanna og bandalagsþjóða þeirra inn í Írak árið 2003 og teygt
sig víða um lönd, hefur enn tekið á sig nýjar og furðulegar myndir. Nú
horfir heimsbyggðin upp á árásir Tyrklandsstjórnar gegn Kúrdum jafnt
innan sem utan landamæra sinna, undir yfirskyni stríðs gegn
hryðjuverkum og hinum alræmdu ISIS-sveitum.

Fáránleiki þessa málatilbúnaðar ætti að vera öllum ljós, enda má
auðveldlega færa fyrir því rök að Tyrkir hafi öðrum fremur stuðlað að
uppgangi ISIS-hreyfingarinnar til að þjóna eigin hagsmunum innan
grannríkja sinna. Markmið Tyrklandsstjórnar er að berja niður
eðlilegar kröfur kúrdnesku þjóðarinnar um sjálfsákvörðunarrétt og
stofnun eigin ríkis, sem og að ala á misklíð þjóðarbrota í von um
stundarvinsældir heimafyrir.

Nú bregður svo við að Nató-ríki hafa lagt blessun sína yfir
málflutning tyrknesku stjórnarinnar og styðja framferði hennar. Með
kaldrifjuðum hætti er Kúrdum því eina ferðina enn fórnað sem peði í
valdatafli vestrænna ríkja í þessum heimshluta.  Með aðildinni að Nató
eru Íslendingar stuðningsaðili þessa gjörnings. Stækkar því enn sá
smánarblettur sem af Nató-aðildinni hlýst. Samtök hernaðarandstæðinga
minna því á þá sjálfsögðu kröfu að Ísland gangi úr Nató og standi utan
allra hernaðarbandalaga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert