Hópar hættir að ganga á Heklu

Frá Heklugosi
Frá Heklugosi mbl.is/Rax

„Mér sýnast margir einstaklingar ganga þarna upp en ekki stórir skipulagðir hópar,“ sagði Anders Hansen í Heklusetrinu á Leirubakka í Landsveit. Hann var spurður hvort dregið hefði úr Heklugöngum eftir að viðvörunarskilti voru sett við gönguleiðir á fjallið. Fólk gengur þar upp nær daglega, mismargir eftir veðri. Enn er svolítill snjór á Heklu. Gangan upp og niður tekur 5-6 tíma.

Frétt mbl.is: Vara við þotuflugi yfir Heklu

„Ef fer að gjósa þá er hver og einn á sína ábyrgð,“ sagði Anders. „En því er ekki að leyna að stundum sýnist manni að fólki finnist meira spennandi að fara upp á Heklu þegar svona skilti blasir við. Því finnst gaman að segja frá því eftirá að það hafi verið á þessum hættulega stað.“

Farþegaþotur í langflugi milli Evrópu og Ameríku fljúga enn beint yfir Heklu, þrátt fyrir viðvaranir Páls Einarssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Hann skrifaði Samgöngustofu fyrir um ári síðan og varaði við því að farþegaþotur leggi leið sína yfir eldfjallið.

„Ég reyndi að vekja athygli á því að það væri óþarfa áhætta tekin með því að flugvélar fljúgi þarna beint yfir,“ sagði Páll. „Það fljúga þarna yfir 20-30 flugvélar á dag. Þær eru í hættu að lenda í stróknum þegar hann kemur. Hekla þarf ekki að eyða neinni orku í að bræða sig upp í gegnum jökul þannig að mökkurinn mun rísa strax með fullri orku og fara upp í tíu kílómetra hæð, upp að veðrahvörfum.“ Páll sagði að það myndi nægja að færa flugleiðina um fimm kílómetra frá Heklu til að minnka áhættuna mikið. „Það sárgrætilega er að það virðast ekki vera nein viðbrögð hjá flugyfirvöldum til þess að gera þennan sjálfsagða hlut. Þá yrði þessi hætta úr myndinni. Það væri alveg hrapallegt ef við misstum allt í einu flugvél þarna,“ sagði Páll.

Færa þarf vegpunktinn

Hann sagði að svo virtist sem flugmenn íslensku flugfélaganna, sem áður flugu yfir Heklu á leið frá Keflavík til Helsinki og Stokkhólms, hafi breytt leiðinni og fari ekki lengur beint yfir Heklu. Öðru máli gegni með langflug frá austurhluta Evrópu og Mið-Austurlöndum til Bandaríkjanna sem enn fer beint þarna yfir. Þessar flugvélar nota Leirubakka sem vegpunkt á leið sinni. Það þarf ekki meira en að færa þann punkt til að vélarnar sleppi við gosstrókinn þegar Hekla kemur.

Páll sagði að Hekla væri í sömu sporum og áður. „Hún er til í næsta slag,“ sagði Páll. „Við fáum ekkert meiri merki fyrr en hún bara kemur. Við vitum það. Hekla á næsta leik og aðdragandinn að honum verður mjög stuttur. Aðdragandinn að gosi verður varla meira en hálftími eða klukkutími.“ Mikill tækjabúnaður er notaður til að vakta Heklu. Þensla jarðskorpunnar vegna vaxandi þrýstings í kvikuhólfinu er hæg. Djúpt er niður á kvikusöfnunina sem þýðir að kúlan sem myndast á landið er umfangsmikil og lág. Merkið sem kemur er dauft en mjög eindregið, að sögn Páls. Þróunin undanfarin ár hefur öll verið upp á við.

En mælir Páll með gönguferðum á Heklu við núverandi aðstæður?

„Ég myndi ekki fara með hóp á Heklu,“ sagði Páll. Hann sagðist myndi ef til vill fara einn en þá myndi hann gæta þess að halda sig vindmegin en ekki hlémegin.

Varað við hættunni

Upplýsingaskilti á íslensku og ensku, þar sem varað er við hættu af eldgosi, eru við gönguleiðirnar upp á Heklu. Þar segir meðal annars að Hekla sé eitt virkasta eldfjall Íslands. Flest eldgos í Heklu hefjist nánast fyrirvaralaust með snörpum jarðskjálftahrinum, síðan sprengifasa og tilheyrandi öskufalli og hraungosi. Forboðar Heklugosa sem urðu árin 1970, 1980-81, 1991 og 2000 sáust á mælitækjum einungis 30 til 80 mínútum áður en gosin hófust.

Sé eldgos yfirvofandi í Heklu eru send SMS-skilaboð í alla farsíma á svæðinu. Sé fólk statt á fjallinu þegar fer að gjósa er það hvatt til að láta vita af sér með því að hringja í síma 112. Það á að forða sér niður sömu leið og það kom upp, ef kostur er. Ráðlagt er að fara þvert á öskufall, sé það hægt, og að forðast lægðir og halda hæð vegna hættu á eldfjallagasi.

Heklugos, gígar í suðurhlíð Heklu.
Heklugos, gígar í suðurhlíð Heklu. mbl.is/Golli
Ármann Höskuldsson jarðfræðingur að störfum
Ármann Höskuldsson jarðfræðingur að störfum mbl.is/Rax
Heklugos
Heklugos mbl.is/Rax
Heklugos
Heklugos mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert