Hvert á að leita með kynferðisbrot?

Þjóðhátíð í Eyjum.
Þjóðhátíð í Eyjum. mbl.is/Guðmundur Sveinn Hermannsson

Litlar upplýsingar er að finna um hvernig tilkynna megi brot sem gestir Þjóðhátíðar kunna að verða fyrir meðan á hátíðinni stendur. Mikil umræða hefur orðið vegna bréfs lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að upplýsa ekki um kynferðisbrot sem kærð eru um verslunarmannahelgina.

Þjóðhátíðarnefnd segir að fólk ætti þrátt fyrir það ekki að eiga í vandræðum með að leita sér hjálpar ef á því er brotið.

Frétt mbl.is: Munu ekki upplýsa um kynferðisbrot

Guðrún Jónsdóttir, talsmaður stígamóta segir ákvörðunina byggja á skilningsleysi og blaðamenn furða sig á málflutningi lögreglustjóra. Í bréfinu leggur hún meðal annars til að blaðamönnum sem óska eftir upplýsingum um hvort kærur vegna kynferðisbrota hafi borist verði svarað með orðunum: „Við höfum enga heimild til að veita slíkar upplýsingar“.

Á vefsíðu Þjóðhátíðar, dalurinn.is er hvergi að finna upplýsingar um hvernig tilkynna megi brot sem gestir hátíðarinnar verða fyrir, hvorki kynferðisbrot né önnur brot. Undir flipanum „Upplýsingar“ er hægt að smella á „Praktískar upplýsingar“. Þar eru aðallega upplýsingar um hvernig hægt er að kaupa miða á Þjóðhátíð og fleira í þeim dúr.

Á forsíðu dalurinn.is er einnig að finna flipa sem vísar á „Forvarnir“. Þar er að finna myndband, „Fáðu já,“ sem birtist á Youtube 31. janúar 2013.

Eru vel merkt í dalnum

Hörður Orri Grettisson, sem á sæti í Þjóðhátíðarnefnd, segir að fólk ætti þrátt fyrir þetta að sjá hratt og örugglega hvert það getur leitað, þurfi það á aðstoð að halda.

„Við erum vel merkt í dalnum, sjúkratjaldið er vel merkt og það fer ekki framhjá neinum og erum með 100 vel merkta menn í gæslu,“ segir Hörður. Fólk ætti því fljótt að sjá hvert það á að leita sé brotið á því með einhverjum hætti. „Við erum með fullkomið viðbragð í dalnum“ segir Hörður Orri.

Herjólfsdalur.
Herjólfsdalur. mynd/Frosti Heimisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert