Ástandið að verða venjulegt

Það getur verið gott að hafa björgunarmenn nálægt.
Það getur verið gott að hafa björgunarmenn nálægt. mbl.is/Landsbjörg

„Þetta er nú óðum að nálgast það sem kalla mætti „venjulegt ástand“ þótt enn megi finna lokaðar leiðir,“ segir Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og vísar í máli sínu til þess ástands sem nú er uppi á fjölförnum hálendisleiðum.

Að sögn Jónasar eru það helst Gæsavatnaleið og Dyngjufjallaleið sem enn eru lokaðar, en björgunarsveitamenn sem staðsettir eru á hálendinu telja margir að þær haldist lokaðar út sumarið. „Þetta eru í raun einu stóru leiðirnar sem enn eru lokaðar, en auðvitað má einnig finna smá stubba hér og þar.“

Þegar blaðamaður ræddi við Jónas fyrr í þessum mánuði mátti víða finna djúpa polla, um 70 sentímetra djúpa, á akstursleiðum á Sprengisandi. Aðspurður segir hann færðina nú nokkuð skaplegri.

„Þetta er nú orðið nokkuð ágætt núna, en það er nú samt enn víða snjór uppi á hálendi, ekki þó á vegum, og bleyta. En færðin er samt orðin ágæt,“ segir Jónas í samtali við mbl.is.

Hann ítrekar þó fyrir þeim sem hafa í hyggju að sækja hálendið heim að vera vel undir ferðalagið búið. Ekki þarf mikið til svo ökumenn lendi í vandræðum.

„Það er alltaf eitthvað um það að fólk festi sig og þá sérstaklega í ánum. Margir virðast ekki kunna að fara rétt yfir þær, sem er kannski eðlilegt. En svo er einnig nokkuð um að fólk sé að sneiða fram hjá pollum og þess háttar hindrunum á vegum og festi sig þá,“ segir Jónas og bætir við að björgunarmenn á hálendinu standi því oft í ströngu við að losa föst ökutæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert