„Það er eiginlega bongó í dag“

Sólin lætur sjá sig um allt land á sunnudag.
Sólin lætur sjá sig um allt land á sunnudag. Skjáskot veðurvefur mbl.is

Veðurspáin fyrir stærstu ferðahelgi landsmanna, verslunarmannahelgina, er nokkuð góð. Besta veðrið verður á sunnudag og mánudag og hitatölur norðan heiða verða loksins tveggja stafa. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir morgundaginn sístan en annars megi fólk búast við því að sjá slatta af gömlu gulu um helgina.

„Í dag er norðanátt á landinu og léttskýjað sunnan heiða. Fyrir norðan er skýjað og einhver smá suddi. Besta veðrið í dag er því sunnanlands, sólríkt og sæmilega hlýtt. Það er eiginlega bongó,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, við mbl.is. Hiti verður á bilinu 12-15 stig sunnan heiða og sólríkt. Norðanlands verður heldur kaldara, 5-10 stiga hiti.

„Morgundagurinn verður ef til vill sísti dagur helgarinnar. Þá er spáð rigningu norðvestantil á landinu, á Vestfjörðum, Breiðarfjarðarsvæðinu og Norðurlandi vestra. Einnig mun líklega rigna við norðaustur ströndina.“

Að sögn Haraldar hangir hann þurr annars staðar á landinu. „Sunnan- og austantil verður skýjað en hann hangir þurr. Hitatölurnar verða eitthvað lægra en í dag og ég býst nú ekki við að það fari hærra en í 10 gráður fyrir norðan.“ Hitatölur verða 5-13 gráður, hlýjast austanlands. Áfram verður kalt á Norðurlandi og Vestfjörðum á morgun.

Haraldur bendir á að sem betur fer sé helgin í lengri kantinum, því bæði sunnudagur og mánudagur verði nokkuð góðir. „Á sunnudag þá virðist hann rífa af sér og það léttir víða til. Ekki er víst að það verði sól allan daginn en veður verður vel bjart og hitinn nokkuð jafn á landinu, 10-15 gráður. Einhversstaðar fer hitinn aðeins hærra.“ Loksins virðist ætla að hlýna norðan heiða en þar má búast við fínu veðri á sunnudag.

„Mánudagur verður síðan afar svipaður og sunnudagur. Reyndar dregur aðeins upp á Norður- og Austurlandi en það verða litlar breytingar á veðri. Sunnudagur og mánudagur verða því báðir góðir um allt land.“

Að lokum spyr blaðamaður við hverju fólk megi búast sem fer í Mýrarboltann á Ísafirði og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. „Er ekki gott að hafa smá bleytu í drulluboltanum? Það er bara spáð rigningu fyrir vestan á morgun og það ætti að létta til á sunnudag. Þar, eins og annars staðar, verður fínt á sunnudag og mánudag.“

Helgarveðrið í Eyjum verður ágætt, að sögn Haraldar. „Þar er fínt í dag og mér sýnist stefna í ágæta helgi. Menn klæða sig ef eitthvað verður að veðri. Það hangir kannski ekki alveg þurrt alla helgina. Ef það verður einhver úrkoma þá er það bara sáralítið.“

Veðurvefur mbl.is

Gamla gula verður í feluleik á morgun.
Gamla gula verður í feluleik á morgun. Skjáskot veðurvefur mbl.is
Heimferðarveðrið er í góðu lagi.
Heimferðarveðrið er í góðu lagi. Skjáskot veðurvefur mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert