Efast um ákvörðun lögreglustjórans

Katrín segir að um sé að ræða samfélagsmein sem verði …
Katrín segir að um sé að ræða samfélagsmein sem verði að tala um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segist efast um ágæti ákvörðunar lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, um að upplýsa fjölmiðla ekki um kynferðisbrot á meðan Þjóðhátíð í Eyjum stendur yfir.

„Ég lýsi yfir nokkrum efasemdum um þessa ákvörðun. Ég tel að þetta sé ekki endilega til hagsbóta, að ekki sé sagt frá kynferðisbrotum eftir að þau hafa átt sér stað,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

„Þetta er glæpamál eins og hvað annað og í glæpamálum eru auðvitað alltaf fórnarlömb. Ég átta mig ekki á því af hverju einhverjar sérstakar röksemdir eigi að gilda um þetta. Þetta er samfélagsmein sem verður bara að tala um.“

Þá segir hún ákvörðunartökuna koma sér einkennilega fyrir sjónir. „Í þessu felst náttúrulega veruleg stefnubreyting og mér finnst að svona ætti að ræða hjá lögreglunni í heild áður en ákvörðun er tekin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert