Færðu blá ljós á eftir þér?

Fæstir vilja hafa lögregluna á hælunum.
Fæstir vilja hafa lögregluna á hælunum. mbl.is/Malín

Það er ekki bara almenningur á leið á útihátíð eða landsmót sem ekur um á þjóðvegum landsins um þessa helgi - lögreglan er þar einnig og fylgist hún grannt með öllu sem þar fer fram.

Þegar blaðamaður náði tali af lögreglumönnum á Blönduósi voru þeir við umferðareftirlit. Aðspurður sagði lögreglumaðurinn alla „mjög löglega“ í umdæminu. Hafa ökumenn þar því ekki þurft að horfa á blá blikkandi ljós á eftir sér í baksýnisspeglinum.

Hér eftir sem hingað til eru lögreglumenn meðal annars með augun á hraða ökutækja, bílbelta- og ljósanotkun og því hvort ökutæki með stóra eftirvagna séu búin framlengingu á hliðarspeglum.

Á Akureyri segja lögreglumenn „allt gott“ vera að frétta af umferðinni, en nokkuð stöðugur straumur ökutækja er nú á leið inn í bæinn. Margir gestir Akureyrar ákváðu að byrja helgina snemma að sögn lögreglunnar því fólk var þegar farið að mæta í gærdag.

Fellihýsi, tjaldvagnar, hjólhýsi og kerrur - allt er þetta dregið á eftir þeim ökutækjum sem nú sækja Akureyri heim auk þess sem fjölmargir húsbílar eru einnig þangað komnir að sögn lögreglu.

„Þetta hefur þó allt gengið mjög vel,“ sagði lögreglumaður í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert