Gera ráð fyrir 25 þúsund gestum

Frá tónleikunum í gær í Skátagilinu.
Frá tónleikunum í gær í Skátagilinu. Mynd/Davíð Rúnar

Gert er ráð fyrir 20-25 þúsund gestum til Akureyrar um helgina, en þar fara fram hátíðin Ein með öllu og ungmennalandsmót UMFÍ. Nú þegar er fjöldi manns kominn í bæinn, en Davíð Rúnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, giskar á að fjöldi landsmótsgesta sé nú þegar á bilinu 10-12 þúsund.

Hátíðin hófst í gær

Hátíðin byrjaði í raun í gær, en þá var svokallaður „Fimmtudagsfílingur“ í Skátagilinu. Auk þess spiluðu Dúndurfréttir á Græna hattinum og í miðbænum var skemmtun fyrir alla fjölskylduna fram að miðnætti. Hún verður þó ekki formlega sett fyrr en í kvöld á Þórssvæðinu.

Davíð segir að stóra breytingin í ár sé klárlega landsmótið og allur sá fjöldi sem fylgi því. Segir hann að flestir þeirra hafi verið komnir í gær, en nýtt tjaldstæði var útbúið á fyrir ofan bæinn á svæði Bílaklúbbsins. Rúmar það allt að 12 þúsund manns, en Davíð segir að nú þegar sé það orðið vel fullt.

Gera ráð fyrir að bærinn verði „smekkfullur“

Eins og fyrr kostar ekkert inn á hátíðina og því erfitt að segja til um hversu margir fara norður, en Davíð segir að miðað við fjölda fyrri ára og viðbótina með landsmótsgestum megi gera ráð fyrir 20-25 þúsund manns. Hann hefur þó ekki áhyggjur af því að þetta sé of mikill fjöldi og bendir á að þau tjaldsvæði sem fyrir hafi verið hafi aldrei fyllst og þá sé dagskráin nokkuð víða. Hann segist þó gera ráð fyrir að bærinn verði „smekkfullur“ og nú þegar megi telja tjöld og hjólhýsi í þúsundatali í bænum.

Hækkandi hitaspá, en enn gæti rignt á laugardaginn

Veðrið hefur ekki leikið við norðanmenn hingað til í sumar, en Davíð segir að talsverð breyting hafi orðið á því síðustu viku. „Veðurspáin búin að vera slæm fyrir þessa viku og helgina, en ekkert hefur ræst og hér hefur verið 13-14°C og sól alla vikuna og í gærkvöldi vorum við í 12°C hita langt fram eftir,“ segir hann.

Enn er spáð rigningu á laugardaginn, eins og víðar um landið, en þess fyrir utan segir Davíð að spáin líti nokkuð vel út. „Ég hef engar áhyggjur af veðrinu,“ segir hann.

Meðal atriða á hátíðinni í ár er ball með Páli Óskari í Sjallanum og tónleikar hjá Úlfi Úlfi, Amabadömu, Ljótu hálfvitunum og Maus. Þá munu Einar Mikael, Söngvaborg og Sveppi og Villi skemmta yngri kynslóðinni.

Séð yfir Akureyri og Eyjafjörð. Fremst sést í hluta nýja …
Séð yfir Akureyri og Eyjafjörð. Fremst sést í hluta nýja tjaldstæðisins. Mynd/Davíð Rúnar
Frá ungmennalandsmótinu sem hófst í dag.
Frá ungmennalandsmótinu sem hófst í dag. Mynd/UMFÍ
Flestir þátttakendur á ungmennalandsmótinu keppa í knattspyrnu.
Flestir þátttakendur á ungmennalandsmótinu keppa í knattspyrnu. Mynd/UMFÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert