„Hindra flug“ til Eyja

Það getur verið þröngt um vélar á vellinum í Eyjum.
Það getur verið þröngt um vélar á vellinum í Eyjum. mbl.is/Sigurgeir

Í kjölfar áhættumats sem unnið var í fyrra var í ár ákveðið að úthluta afgreiðslutíma á Vestmannaeyjaflugvelli um helgina. Er það Isavia sem sá um úthlutunina og var hún gerð til þess að koma í veg fyrir að hættuástand skapist vegna mikils álags. Flugmálafélag Íslands gagnrýnir hins vegar þessa ákvörðun.

Í yfirlýsingu sem Flugmálafélagið sendi frá sér kemur meðal annars fram að um sé að ræða verulega skerðingu á flugsamgöngum til Vestmannaeyja og að ekkert samráð hafi verið haft við ákvörðunina.

„Hinar nýju reglur segja að fjórar flugvélar geti flogið til Eyja á hverjum hálftíma og mun það skipulag með engum hætti anna þeirri umferð sem að öllu jöfnu fer um völlinn um þessa helgi. Breytingin er gerð í nafni flugöryggis,“ segir í tilkynningu félagsins.

„Flugmálafélagið lýsir miklum vonbrigðum með starfshætti Isavia og man félagið ekki eftir öðru eins samráðs- og skilningsleysi hjá flugmálayfirvöldum. Með samráði hefði með góðu móti mátt hámarka flugöryggi en um leið tryggja afkastagetu vallarins sem er mikilvæg stoð í flugsamgöngukerfinu. Aðgerðir nú um verslunarmannahelgina hindra flug með áður óþekktum hætti og er dapur vitnisburður um stefnu Isavia gagnvart flugsamgöngum almennings í landinu.“

Átta vélar geta lent á 30 mín

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia er umferð um verslunarmannahelgi mjög mikil og því var afgreiðslutímum úthlutað með hliðsjón af áætluðu umferðarmagni. Er miðað við að flugtök og lendingar verði ekki fleiri en átta á hverjum hálftíma. Þannig gætu átta flugvélar lent eða tekið á loft á hálftíma.

Er þetta gert til þess að tryggja að ekki séu of margar flugvélar í einu í loftrýminu og vegna þess að stæði á flugvellinum eru takmörkuð.

Bendir Isavia einnig á að um verslunarmannahelgina í fyrra hafi flughreyfingar verið 566 talsins en í ár er fjöldi afgreiðslutíma 896.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert