Kaupendur úti áhyggjufullir

Makríll.
Makríll. mbl.is/Albert Kemp

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa ekki fengið meldingu um að viðskiptaþvinganir af hálfu Rússa séu í farvatninu, en ljóst er að loki rússnesk stjórnvöld fyrir innflutning íslenskra fiskafurða verður skaðinn mikill, bæði fyrir íslenska og rússneska aðila.

Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Pútín Rússlandsforseta, sagði í vikunni að svo gæti farið að stjórnvöld gripu til aðgerða gegn þeim ríkjum sem styðja refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna innlimunar Krímskaga og átakanna í Úkraínu. Tilefnið var yfirlýsing Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, um framlengingu aðgerða en þar var Ísland á lista yfir þátttökuríki.

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS, segir samtökin hafa verið í sambandi við utanríkisráðuneytið en engar fregnir hafi borist um málið frá yfirvöldum í Rússlandi. Hann segir fyrirtækin hér heima hins vegar hafa heyrt það hjá kaupendum eystra að þeir séu uggandi vegna málsins, enda eiga þeir ekki síður hagsmuna að gæta.

En hvað er í húfi fyrir íslensk fyrirtæki?

„Ef við horfum á síðastliðin ár og t.d. bara 2014, þá var þetta stærsti uppsjávarmarkaður Íslendinga,“ segir Haukur, en um 120.000 tonn af uppsjávarafurðum voru fluttar til landsins í fyrra. Um er að ræða makríl, síld og loðnu, en Haukur segir sérstaklega reyna á makrílútflutning. „Þar erum við Íslendingar nýbyrjaðir á markaði. Það hefur gengið vel þarna austurfrá, en þetta er allt öðruvísi en með þorskinn, þar sem menn hafa verið áratugum saman; menn þekkja þann markað og eru með marga kaupendur um allan heim.“

Haukur segir um að ræða magnmarkað og að ekki verði hlaupið að því að finna aðra kaupendur. Hann bendir á að gjaldeyrishöft séu nú nýkomin á í Nígeríu, þar sem makríllinn hefur einnig verið seldur, og þá sé framboðið mikið um þessar mundir. Birgðir hafi t.d. safnast fyrir í Noregi, sem fái nú þegar að finna fyrir viðskiptaþvingunum Rússa.

Níu íslensk fyrirtæki eiga hagsmuna að gæta, að sögn Hauks, en stærð Rússlandsmarkaðar fyrir íslenskt sjávarfang nam 200 milljónum Bandaríkjadala í fyrra. Þar af keyptu Rússar makríl fyrir 80 milljónir dala.

En líkt og fyrr segir verða það ekki aðeins íslenskir aðilar sem munu finna fyrir því ef Rússar grípa til viðskiptaþvingana.

„Þeir missa fæðuframboð inn í landið,“ segir Haukur. „Þetta voru einhver 120.000 tonn af fisk sem Íslendingar voru að selja út í fyrra. Þannig að þetta er í fyrsta lagi bara mikið af matvælum sem fara ekki inn í landið. Og rússneskir kaupendur, sem jafnvel vinna vöruna áfram og pakka henni og þar fram eftir götunum; það náttúrulega blasir við hráefnaskortur hjá þeim.“

Frétt mbl.is: Hóta að beita Ísland refsiaðgerðum

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS.
Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert