Óskar eftir upplýsingum um nauðganir

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur farið fram á að innanríkisráðherra svari því hversu margar nauðganir hafa verið kærðar frá aldamótum til og með 8. september 2015 þegar Alþingi kemur saman eftir sumarfrí. Þá hefur hann óskað eftir því að upplýsingarnar verði flokkaðar eftir dagsetningu og staðsetningu.

Tilefni fyrirspurnarinnar til innanríkisráðherra segir Jón Þór vera ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að lögregla svari ekki spurningum fjölmiðla um möguleg kynferðisbrot á Þjóðhátíð. Hann bendir á að ákvörðunin hafi verið gagnrýnd, m.a. af Stígamótum.

„Geta lögregluumdæmin í sjálfu sér ákveðið að nei, þessar upplýsingar ætlum við ekki að birta?“ spyr Jón Þór. „Geta þau þá líka ákveðið að þau ætli ekki að birta upplýsingar um þjófnaði eða morð.. Hvar liggja þau mörk öllsömul?

Og þarna er ekki verið að tala um neinar persónugreinanlegar upplýsingar. Og nú vitum við það líka að grundvallaratriði, og þetta er eitt það áhrifamesta sem við höfum lært á síðustu árum, við það að uppræta nauðgunarmenningu eru einmitt upplýsingar. Að koma þessu upp á yfirborðið og senda skömmina þangað sem hún á heima.“

Jón Þór þekkir það vel að upplýsingum sé haldið frá fjölmiðlum, en það hefur oft gerst að fjölmiðlar leiti til hans eftir aðstoð þegar þeim gengur illa að eiga við hið opinbera.

„Ég hef reynt að leggja mig fram um það þegar hið opinbera neitar að veita fjölmiðlum upplýsingar, af því að ég hef þetta verkfæri sem er að kalla eftir upplýsingum frá ráðherra samkvæmt þingsköpum og stjórnarskrá,“ segir hann en markmiðið sé að tryggja að viðkomandi upplýsingar berist almenningi.

Jón Þór segir um að ræða kerfislægt vandamál sem þarf að laga, en hann hafi ekki ráðist í að kortleggja það. Hann segir Pírötum mjög umhugað um margt sem viðkemur upplýsingaaðgengi.

„Upplýsingarétturinn gengur út á að almenningur hefur rétt á að fá upplýsingar frá hinu opinbera og við erum hlynt því að allar upplýsingar sem varða ekki verndun og friðhelgi einkalífsins, eða verndun annarra borgararéttinda, og þar með talin einhverskonar þjóðaröryggissjónarmið; að allar aðrar upplýsingar eigi að liggja fyrir, sem ríki safnar eða stendur straum af. Eins og kemur fram í frumvarpi stjórnlagaráðs. Þar stöndum við og við náttúrulega erum að ýta á það að frumvarpið verði að nýrri stjórnarskrá,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert