„Skipulagning er lykillinn að öllu“

Stefanía tekur við bronsverðlaunum í Aserbaídsjan.
Stefanía tekur við bronsverðlaunum í Aserbaídsjan. Ljósmynd/Tamás Stenczel

Stefanía Katrín Finnsdóttir, sem vann til bronsverðlauna í alþjóðlegri Ólympíukeppni í efnafræði, segir að þakka megi góðri skipulagningu árangurinn. Í samtali við mbl.is segir hún að keppnin hafi þótt óvenju erfið í ár.

„Kínverjinn sem var hæstur í ár var með rúmlega 84 stig af 100 mögulegum,“ segir Stefanía og nefnir til samanburðar að jafnan séu stigahæstu keppendurnir með stigafjölda í kringum 97.

Keppnin skiptist í fræðilegan og verklegan hluta og tekur hvor um sig fimm klukkutíma. „Í verklega hlutanum voru þrjú verkefni sem átti að leysa og í fræðilega hlutanum voru átta dæmi. Yfirleitt eru tvö til þrjú verkefni í verklega hlutanum en nú voru þrjú löng, þannig að fæstir náðu að klára þann hluta.“

Fimmti Íslendingurinn til að vinna brons

Stefanía segir að sér hafi alltaf þótt gaman að efnafræði. „Ég er búin að læra hana í þrjú ár núna í MR. Svo hófum við þjálfun fyrir þessa keppni í júní og æfðum stíft á hverjum degi. Þá fann ég hvað ég hafði virkilega mikinn áhuga á þessu.“

Stefanía er fimmti Íslendingurinn til að vinna bronsverðlaun í keppninni á síðustu 14 árum. Aðspurð hverju hún geti þakkað árangurinn segir hún að skipulagning sé lykillinn að öllu. „Að sinna þessu vel skiptir einnig máli auk þess sem mikilvægt er að setja sér markmið.“

Víst er að skipulagning kemur Stefaníu að góðum notum en samhliða kröfuhörðu námi leikur hún á píanó. Þá æfði hún ballett í ellefu ár. „Ég varð að hætta þegar ég byrjaði í MR því það tók svo mikinn tíma.“

Fyrst Aserbaídsjan, svo Marokkó

Stefanía lauk þriðja ári í Menntaskólanum í Reykjavík í vor og á því ár eftir af námi sínu, en hún er á eðlisfræðibraut I. Áður en síðasta skólaárið hefst fer hún þó fyrst í útskriftarferð ásamt árgangnum sínum. 

„Ég fer til Marokkó eftir þrjá daga, þannig ég kem hingað beint heim frá Aserbaídsjan og svo strax aftur út til Marokkó. Það er svolítið skemmtilegt að fara til tveggja nýrra heimsálfa á svona skömmum tíma.“

Eftir menntaskólagönguna stefnir Stefanía á nám í læknisfræði. „Annað hvort hérna á Íslandi eða í Danmörku. Þar eru mjög góðir skólar og auðveldara fyrir Íslendinga að komast þangað inn heldur en annað. Svo langar mig bara að breyta til og upplifa eitthvað nýtt,“ segir Stefanía og bætir við að efnafræðin eigi eftir að nýtast henni vel í læknisfræðinámi. „Það er heilmikil efnafræði í læknisfræðinni.“

Öll úr sama skólanum

Ásamt Stefaníu kepptu þeir Arn­ór Jó­hanns­son, Tóm­as Viðar Sverris­son og Úlfur Ágúst Atla­son fyr­ir Íslands hönd í ár, en þjálfarar liðsins eru þau Katrín Lilja Sig­urðardótt­ir, aðjúnkt í efna­fræði við Há­skóla Íslands og Már Björg­vins­son, efna­fræðikenn­ari við Mennta­skól­ann í Reykja­vík.

Allir fjórir liðsmenn eru í sama árgangi í MR. „Krökkunum úti fannst það dálítið merkilegt að við værum öll úr sama skólanum,“ segir Stefanía og hlær við.

Að lokum segist hún kunna styrktaraðilum liðsins miklar þakkir. „Við fengum liðsbúninga og sloppa frá 66° Norður sem voru alveg frábærir og svo styrktu Íslensk erfðagreining, Góa og Omnom súkkulaði okkur líka,“ segir Stefanía og bætir við að hún vilji ekki útiloka þann möguleika að íslenska nammið hafi verið lykillinn að því að ná bronsinu.

Sjá frétt mbl.is: Stef­an­ía fékk brons í Ólymp­íu­keppn­inni

Stefanía með bronsverðlaunin um hálsinn.
Stefanía með bronsverðlaunin um hálsinn.
Ólympíulið Íslands í efnafræði. Frá vinstri: Már Björgvinsson þjálfari, Arnór …
Ólympíulið Íslands í efnafræði. Frá vinstri: Már Björgvinsson þjálfari, Arnór Jóhannsson, Úlfur Ágúst Atlason, Tómas Viðar Sverrisson, Stefanía Katrín Finnsdóttir og Katrín Lilja Sigurðardóttir, þjálfari og liðsstjóri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert