Skítamórall mætir loks í drulluna

Mýrarboltinn er ekkert grín.
Mýrarboltinn er ekkert grín. Eva Björk Ægisdóttir

Allt er að verða klárt á Ísafirði fyrir mýrarboltahátíðina sem hefst í kvöld og stendur yfir alla helgina. Jón Páll Hreinsson, mýrarfláki og aðal skipuleggjandi hátíðarinnar, segir að undirbúningurinn gangi frábærlega og að allir séu að verða tilbúnir í að spila bolta.

Allir unnið sem ein heild, nema veðurfræðingarnir

„Það eru allir búnir að vinna sem ein heild í þessum mýrarbolta í ár, nema veðurfræðingarnir sem hafa verið með uppsteyt,“ segir Jón í gamansömum tón og bætir við að hann sé nú farinn að taka þessu pínu persónulega. „Við skiljum ekkert hvað við höfum gert þeim til að verðskulda þetta,“ segir hann.

Samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar gæti eitthvað orðið um rigningu á laugardaginn, en Jón segir að það sé ekkert að fara að stoppa mýrarboltamenn. „Við erum sveigjanlegir,“ segir hann og bætir við að þeir séu „tilbúnir að fara íslensku leiðina,“ sem felur í sér að hnika til og haga seglum eftir vindi með stuttum fyrirvara.

Gera ráð fyrir um 40 liðum

Nú þegar hafa 35 lið skráð sig, en Jón segir að búast megi við því að fjöldi þeirra verði um 40 áður en mótið hefst. Segir hann að alltaf komi inn lið á lokasprettinum og þá myndi liðleysur saman lið. Í hverju liði eru að meðaltali um 10 leikmenn og því eru á bilinu 350 til 400 manns skráðir í mótið núna. Þá segir Jón að margir mæti til að fylgjast með og koma á tónlistarviðburðina sem eru í bænum yfir helgina. Segir hann að búist sé við um 1000 til 2000 manns, en að mótshaldarar séu tilbúnir að taka við mun fleiri.

Jóni er talsvert umhugað um veðrið, enda skiptir það máli á svona móti sem fer fram undir berum himni. Segir hann að þrátt fyrir meint uppsteyt veðurfræðinganna, þá hafi spáin nú farið batnandi eftir því sem á leið vikuna. Þannig sé nú nokkuð góð spá fyrir bæði sunnudag og mánudag. „Meðaltalið er því gríðarlega gott,“ segir hann.

Var kominn tími á að fá Skítamóral

Mýrarboltahátíðin er nú haldin 12. árið í röð og vekur það athygli að hin margfræga hljómsveit Skítamórall er meðal þeirra sem koma fram í ár. Aðspurður hvort ekki hefði verið við hæfi að fá þá til að spila mun fyrr, miðað við tenginguna við mýrarbolta og drullu, segir Jón að þetta hafi klárlega verið atriði sem þyrfti að bæta úr. „Við settumst niður í fyrra eftir að hafa haldið þetta 11 sinnum og pældum í því að Skítamórall hafði aldrei mætt. Við urðum að gera bragabót á því, enda fásinna eins og allir geta séð,“ að hafa ekki fengið þá fyrra, segir hann. Auk Skítamórals verða tónleikar með Retro stefson og Blaz Roca um helgina.

Á heimasíðu hátíðarinnar er tekið sérstaklega fram að hún sé ekki fjölskylduhátíð og áfengi hefur lengi verið hluti af skemmtuninni á vellinum. Skipuleggjendur leggja þó mikið upp úr að allir hagi sér sómasamlega og áskilja sér rétt til að senda fólk heim hagi það sér á annan hátt. Jón segir að góð framkoma sé brýnd fyrir liðunum og það hafi skilað sér í gegnum árin. „Við höfum verið heppin með gesti og stemmningin hefur verið góð,“ segir hann.

Keppendur í Mýrarbolta eru drullugir upp fyrir haus.
Keppendur í Mýrarbolta eru drullugir upp fyrir haus. mbl.is/Eva Björk
Stjórnendur Mýrarboltans, þeir Jóhann Bæring Gunnarsson, Jón Páll Hreinsson og …
Stjórnendur Mýrarboltans, þeir Jóhann Bæring Gunnarsson, Jón Páll Hreinsson og Hálfdán Bjarki Hálfdánsson Sigurjón J. Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert