Stefanía fékk brons í Ólympíukeppninni

Íslensku keppendurnir, fyrir miðri mynd, ásamt þjálfurum sínum. Stefanía með …
Íslensku keppendurnir, fyrir miðri mynd, ásamt þjálfurum sínum. Stefanía með verðlaunapeninginn.

Stefanía Katrín Finnsdóttir, nemandi í MR, vann til bronsverðlauna í alþjóðlegri Ólympíukeppni í efnafræði sem lauk í gær. Keppnin er ætluð ungmennum undir 20 ára aldri sem ekki stunda sérhæft nám í faginu, það er, ekki byrjuð í háskóla.

Í fréttatilkynningu kemur fram að á hverju ári fer fram alþjóðleg Ólympíukeppni í efnafræði. Í ár var hún haldin í Baku í Azerbaijan. Þau Arnór Jóhannsson, Stefanía Katrín Finnsdóttir, Tómas Viðar Sverrisson og Úlfur Ágúst Atlason kepptu fyrir Íslands hönd í ár. Þau eru öll nemendur Menntaskólans í Reykjavík og voru þar að ljúka sína 3. námsári.

Þjálfari og liðsstjóri Ólympíuliðsins er Katrín Lilja Sigurðardóttir, aðjúnkt í efnafræði við Háskóla Íslands. Már Björgvinsson, efnafræðikennari við Menntaskólann í Reykjavík, þjálfar einnig liðið.

Allir íslenskir menntaskólanemar sem uppfylla þátttökuskilyrði Ólympíukeppninnar hafa möguleika á að komast í landsliðið í efnafræði því árlega fer fram landskeppni sem öllum stendur til boða að spreyta sig á, segir í tilkynningu.

290 keppendur frá 75 löndum tóku þátt en hvert land má að hámarki senda fjóra keppendur til leiks. Keppnin skiptist í fræðilegan hluta sem vegur 60% og verklegan hluta sem vegur 40% en nemendur fengu 5 klst til að ljúka hvorum hluta.

„Kínverjar voru tvímælalaust sigurvegarar keppninnar í ár en þeir lentu í fjórum efstu sætunum. Yifu Ouyang var stigahæstur með 84,383 stig af 100 mögulegum en í verklega hlutanum var Bandaríkjamaðurinn David I-Hsuan Wang stigahæstur. Af norðurlandaþjóðunum var Daninn Kristopher Torp Jensen stigahæstur. Hann hlaut silfurverðlaun en Danir fengu að auki tvenn bronsverðlaun. Finnar fengu þrjú brons, Svíar eitt brons en Norðmenn hlutu engin verðlaun að þessu sinni.

Stefanía Katrín Finnsdóttir var stigahæst íslensku keppendanna og vann sér til bronsverðlauna en Tómas var aðeins 1,7 stigi frá verðlaunum. Stefanía er fimmti íslenski nemandinn sem vinnur til verðlauna í alþjóðlegu Ólympíukeppninni í efnafræði á þeim 14 árum sem við höfum tekið þátt. Íslendingar hafa þó aldrei unnið silfur eða gullverðlaun. Þeir Íslendingar sem áður hafa unnið til verðlauna eru Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson og María Óskarsdóttir í Kóreu árið 2006, Árni Johnsen í Japan árið 2010 og Ragnheiður Guðbrandsdóttir í Tyrklandi árið 2011,“ samkvæmt tilkynningu.

Almenna landskeppnin í efnafræði fór fram þriðjudaginn 24. febrúar í ár. Alls tóku þátt 118 nemendur úr 10 skólum en keppnin var haldin í skólum þeirra nemenda sem tóku þátt. Sigurvegari almennu landskeppninnar var Sigurður Jens Albertsson úr Menntaskólanum í Reykjavík.

15 efstu keppendum sem uppfylltu þátttökuskilyrði Ólympíukeppninnar í efnafræði var boðið að taka þátt í úrslitakeppni sem haldin var í Háskóla Íslands helgina 14. – 15. mars. Úrslitakeppnin skiptist í fræðilega keppni og verklega keppni. Vægi fræðilega hlutans var 60% en verklega hlutans 40%.

Röð keppenda í úrslitakeppni landskeppninnar var eftirfarandi

Gunnlaugur Helgi Stefánsson, MR
Stefanía Katrín Finnsdóttir, MR
Úlfur Ágúst Atlason, MR
Dagur Tómas Ásgeirsson, MR
Tómas Viðar Sverrisson, MR
Arnór Jóhannsson, MR
Matthías B. Harksen, MR
Hjalti Þór Ísleifsson, MR
Páll Jökull Þorsteinsson, MR
Þorsteinn Hálfdanarson, MR
Marinó Örn Ólafsson, MR
Stefán Ármann Hjaltason, MA
Atli Fannar Franklín, MA
Árni Tómas Sveinbjörnsson, Kvennaskólinn
Ýmir Gíslason, MR

Þeir Gunnlaugur og Dagur ákváðu að taka þátt í Ólympíukeppninni í eðlisfræði og stærðfræði.

Nemendurnir fjórir voru í þjálfun í 14 daga á tímabilinu frá 15. júní til 15. júlí.

Á næsta ári verður Ólympíukeppnin í efnafræði haldin í Karachi í Pakistan. Íslendingum hefur verið boðið að taka þátt í Norðurlandakeppninni í efnafræði frá og með næsta ári svo að landsliðið í efnafræði mun þá hafa viðkomu í Danmörku þar sem norræna keppnin verður haldin, áður en haldið verður til Pakistan.

Íslenska liðið ásamt þjálfurum sínum.
Íslenska liðið ásamt þjálfurum sínum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert