Þotan rétt slapp við gosið

Örin bendir á slóð þotunnar sem flaug yfir Heklu í …
Örin bendir á slóð þotunnar sem flaug yfir Heklu í þann mund sem eldgosið hófst. Myndin var tekin frá Laugarvatni á litla myndavél. Fyrir miðri mynd má sjá gosmökkinn sem reis ógnarhratt upp úr Heklu. Ljósmynd/Einar Pálsson

„Um 20 til 25 sekúndum eftir að þota flaug yfir Heklu í á að giska 30 þúsund feta hæð fór gosmökkurinn upp í gegnum slóðina eftir þotuna,“ sagði Skúli Brynjólfur Steinþórsson flugstjóri. Hann var í heyskap austur í Flóa þegar Hekla fór að gjósa 1980.

Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði, var á Laugarvatni og varð einnig vitni að upphafi gossins. Sonur hans tók ljósmyndir sem sýna slóðina eftir þotuna og ört rísandi gosmökkinn.

Frétt mbl.is: Varar við þotuflugi yfir Heklu

Fast bannsvæði í kringum Heklu myndi ekki einungis hafa áhrif á yfirflug yfir landið heldur einnig flug til og frá Keflavíkurflugvelli, aðallega flug til og frá Skandinavíu.

Berist flugstjórn boð frá Veðurstofunni um hræringar í Heklu, sem þykja benda til yfirvofandi eldgoss, verður sett flugbannssvæði í kringum fjallið, samkvæmt viðbragðsáætlun.

Ætla má að 10-15 mínútum síðar verði allar flugvélar farnar út úr hring sem nær 60 sjómílur (111 km) í kringum fjallið. Það tekur þotu tæplega átta mínútur að fljúga 60 sjómílur.

Páll skrifaði Samgöngustofu í fyrra til að vara við því að fjöldi flugvéla leggi leið sína yfir Heklu á hverjum degi.

Samgöngustofa leitaði álits Veðurstofunnar á bréfi Páls og fól Isavia að vinna áhættumat. Hlín Hólm, deildartjóri flugleiðsögudeildar Samgöngustofu, sagði að vinna við áhættumatið væri á lokastigi og á hún von á að það berist eftir sumarfrí, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert