Hæsta hitastig var aðeins 8,8 gráður

Fjallið Reykjaneshyrnan kom sjaldan upp úr þokuloftinu í síðasta mánuði.
Fjallið Reykjaneshyrnan kom sjaldan upp úr þokuloftinu í síðasta mánuði. Mynd/Jón G. Guðjónsson

Júlímánuður var mjög kaldur í Árneshreppi á Ströndum, en samkvæmt veðurmælingum frá Litlu-Ávík var mesti hiti mánaðarins aðeins 8,8 gráður og meðalhiti mánaðarins 5,42 gráður, en það er rúmlega tveimur gráðum minni meðalhiti en í fyrra þegar meðalhitinn mældist 7,59 gráður. 

Jón G. Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík, segir að hafáttir hafi verið ríkjandi í mánuðinum, þó þær hafi oftast verið hægar. Segist hann vart trúa því að hæsta hitastig hafi aðeins verið tæpar níu gráður og að það lýsi illa júlí mánuði. Segir hann þetta kaldasta júlímánuð á Stöndum síðan 1995 þegar mælingar hófust á Litlu-Ávík.

Töluverð úrkoma var í mánuðinum á Ströndum og var aðeins þurrt í fimm daga. Jón segir slátt því hafa hafist seint vegna bæði vætutíðar og kulda sem hafi jafnframt orsakað sprettuleysi. Lesa má nánar um veðurfar á Ströndum á vefnum Litli Hjalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert