„Hér eru allir stilltir, sáttir og sælir“

„Þetta er búið að ganga mjög vel,“ segir Andri Ómarsson, einn skipuleggjenda Kotmóts Hvítasunnukirkjunnar, sem er haldið að Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð nú um verslunarmannahelgina.

Þetta er í 66. skipti sem mótið er haldið en um er að ræða kristilegt mót á vegum Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi. Er aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

„Dagskráin hófst á fimmtudaginn, eins og áður, og verður hún fram á mánudagsmorgun. Við höfum verið einstaklega heppin með veður, annað árið í röð, þannig að við höfum getað farið í sólbað inn á milli notið þess að vera úti,“ segir Andri.

Hann áætlar að um þúsund gestir hafi verið á svæðinu rétt fyrir hádegi í dag. Eitthvað eigi þó eftir að bætast í hópinn eftir því sem líður á helgina.

Dagskráin er þéttskipuð viðburðum fyrir alla fjölskylduna, svo sem tónleikum, samkomum, varðeld og karnivali, auk þess að viðamikil dagskrá er fyrir börn og unglinga. 

Aðspurður segir hann engin vandamál hafa komið upp. „Nei, ekkert slíkt. Þetta er bindindismót og hér eru allir stilltir, sáttir og sælir. Það er allt búið að ganga rosavel fyrir sig.“

Sýnt er beint frá mót­inu all­an sól­ar­hring­inn á vefsíðu þess, kotmót.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert