„Hérna er fín stemning“

Hátíðahöld á Siglufirði og Neskaupsstað fara vel fram.
Hátíðahöld á Siglufirði og Neskaupsstað fara vel fram. mbl.is/Kristinn

„Hérna er fín stemning. Það var ball í gærkvöldi sem fór vel fram og var mjög skemmtilegt,“ segir Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Neistaflugs á Neskaupsstað, við mbl.is.

„2478. Nei ég held að það séu um 2500 manns hérna,“ segir hún hlæjandi aðspurð hversu margir gestir séu á hátíðinni. Stíf dagskrá er áætluð í allan dag sem endar með balli með Todmobile í kvöld. 

Guðmundur Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Síldarævintýrisins á Siglufirði, segir skemmtun gærdagsins hafa gengið vel. „Reyndar var rigningarúði, veðrið hefur sett töluvert strik í reikninginn. Það er þurrt núna og alveg skínandi veður og vonandi fjölgar fólki hérna.“

Hann áætlar að gestir séu um 2000. „Dagskráin heldur sínu striki í allan dag og á morgun. Á morgun er síðan spáð glampandi sól þannig að mér líst vel á þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert