Kominn aftur á götuna tíræður

Lárus Sigfússon gengur frá bílakaupunum.
Lárus Sigfússon gengur frá bílakaupunum.

Lárus Sigfússon fagnaði aldarafmæli sínu í febrúar síðastliðnum. Í viðtali við Morgunblaðið við það tilefni sagðist Lárus, sem starfaði í áratugi sem bílstjóri, hættur að keyra og búinn að selja síðasta bílinn.

Nú hefur Lárus hins vegar söðlað um og er aftur kominn á götuna. Hann brá sér í vikunni á bílasöluna Bílfang og keypti sér Volkswagen Passat. Sögusagnir um að hann hefði leyft ökuskírteininu að daga uppi segir hann í besta falli stórlega ýktar.

„Ég get nú sagt þér það að ég er með ökuskírteinið í vasanum. Það er til reiðu. Ég hef alltaf verið með skírteini og aldrei misst það af neinum orsökum. Aldrei í þessi áttatíu ár sem ég hef verið að keyra hef ég verið stoppaður af lögreglu vegna aksturs og aldrei orðið uppvís af því að keyra öðruvísi en mér ber.“ Geri aðrir betur.

Lárus segir það þó ekki vera akstursþörfina sem dró hann á bílasöluna. „Ég efast um að ég keyri nú mikið. Það eru sérstakar fjölskylduaðstæður á bak við það að ég keypti aftur bíl.“

Lárus hefur komist ferða sinna á rafskutlu síðan í vetur og segist una því ágætlega, þetta sé meira fyrir fjölskylduna. „Ég hef oftast átt tvo bíla og mér hefur þótt gott að eiga annan bíl til þess að lána ef einhver í fjölskyldunni þarf á því að halda.“

Það skyldi engan undra þar sem börn Lárusar, barnabörn og þaðan fram eftir götunum eru orðin æði mörg. Raunar eru þau svo mörg að Lárus hefur fyrir löngu gefist upp á að halda utan um töluna á þeim.

„Ég hef ekki tölu á þessu, þó einhverjir segðu mér hana og einhverjir ættingjar mínir hafa verið að kanna þetta, þá gleymi ég því jafnóðum. Legg þetta ekki á minnið. Þetta er bara svona.“ Það gæti enda haft lítið upp á sig þar sem að í svo stórum hópi má alltaf eiga von á því að ný börn skjóti upp kollinum hér og þar og spilli talningunni.

Lárus starfaði lengi sem leigu- og ráðherrabílstjóri, en hann vann sem slíkur þar til hann náði 73 ára aldri, en það var í ráðherratíð Þorsteins Pálssonar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert