Líf og fjör á Akureyri í blíðunni

Frá Unglingalandsmóti UMFÍ
Frá Unglingalandsmóti UMFÍ

Skemmtanahald fór vel fram á Akureyri í gærkvöldi og í nótt. Davíð Rúnar Gunnarsson, skipuleggjandi fjölskylduhátíðarinnar Ein með öllu í höfuðstað Norðurlands, segir stemninguna í bænum góða og skemmtanahalda hafa farið vel fram. „Þetta var „bjútífúl“. Allt rólegt og þægilegt og mikið stuð og gleði,“ segir Davíð við mbl.is.

„Ég held að það séu um 10.000 manns á landsmóti UMFÍ og einhver svipaður fjöldi að koma á Eina með öllu.“ Boðið verður upp á dagskrá í dag, sem að sögn Davíðs er afar barnvæn. „Dagskráin á Ráðhústorginu verður mjög barnvæn. Einnig verður liðurinn mömmur og möffins í Lystigarðinum í dag. Ég held að allir séu að baka þessa stundina, sem er skemmtilegt.“

Sumarið er komið

Ómar Bragi Stefánsson, landsfulltrúi, unglingalandsmóts UMFÍ sem fer fram á Akureyri um helgina var kátur þegar blaðamaður mbl.is heyrði í honum. „Þetta gengur mjög vel. Keppni dagsins er farin af stað en í dag er keppt í 28 greinum.“ Keppendur eru um 2.000 en með fylgisfiskum eru um 10.000 á mótinu.

Að lokinni setningarathöfn Unglingalandsmótsins í gærkvöldi afhenti Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, fyrir hönd hreyfingarinnar Akureyrarbæ þakkarskjöld. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri veitti skildinum viðtöku. 

Helga Guðrún Guðjónsdóttir sagði af þessu tilefni það heiður fyrir hönd hreyfingarinnar að fá að afhenda Akureyrarbæ þennan þakkarskjöld fyrir það dugmikla og kröftuga starf sem hefur verið unnið í bænum. 

Að sögn Ómars virðist sumarið loksins vera komið norðan heiða. „Hér er stafalogn og yndislegt veður. Krakkarnir á stuttbuxum og þetta er besti dagur sem við höfum séð í margar vikur!“

Stemningin á fjölskylduhátíðinni Ein með öllu er góð.
Stemningin á fjölskylduhátíðinni Ein með öllu er góð. mbl.is/Þorgeir
Akureyrarbæ afhentur þakkarskjöldur.
Akureyrarbæ afhentur þakkarskjöldur. Ljósmynd/UMFÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert