Sungu fyrir spilltan öryggisvörð

Genghis Car í Rúmeníu
Genghis Car í Rúmeníu Mynd/Daníel Eldjárn

Fjórmenningarnir sem ákváðu að taka þátt í hinu ævintýralega Mongol Rally frá Bretlandi til Mongólíu eru núna tæplega hálfnaðir á för sinni, en þeir héldu af stað áleiðis til Rússlands frá Georgíu í morgun. Hafa þeir lagt að baki rúmlega 6 þúsund kílómetra og eiga aðra 8 þúsund eftir. Á þeim tæplega 14 dögum sem keppnin hefur staðið yfir hafa þeir lent í allskonar ævintýrum, en bíllinn, sem má aðeins vera með 1,2 lítra vél, hefur hingað til haldist heill.

Stund milli stríða yfir tei og sólblómafræum í Istanbúl.
Stund milli stríða yfir tei og sólblómafræum í Istanbúl. Mynd/Daníel Eldjárn

Það voru bræðurnir Daní­el Eld­járn Vil­hjálms­son og Tóm­as Eld­járn Vil­hjálms­son ásamt vinum sínum Tryggva Kas­per­sen og Helga Kristjáns­syni sem ákváðu að skella sér í þetta ævintýri sem hófst 19. júlí. Þegar mbl.is heyrði í Tómasi sagði hann að ferðin hefði gengið rosalega vel, auðvitað hafi mikið verið um akstur, en þeir hafi upplifað mikla gestrisni þar sem þeir hafi komið og Rúmenía sé það land sem hafi hingað til komið þeim mest á óvart.

Festust næstum því í ferjunni frá Bretlandi

Ferðin byrjaði þó ekki þrautalaust fyrir sig, því þeir festust næstum því með bílinn í ferjunni frá Dover í Bretlandi til Calais í Frakklandi. Tómas segir að einn þeirra hafi ætlað að skjótast upp á þilfar og á sama tímapunkti og hann hoppaði af stað hendir hann bíllyklunum til Tómasar sem stóð þar rétt hjá. Ekki vildi betur til en að lyklarnir enduðu í einstaklega óheppilega staðsettri rauf á gólfinu. „Þarna stöndum við eins og algjörir kjánar, nýlagðir af stað, búnir að festa bílinn um borð í ferjunni því þetta voru einu bíllyklarnir okkar,“ segir Tómas.

Transfagarasan hraðbrautin í Rúmeníu.
Transfagarasan hraðbrautin í Rúmeníu. Mynd/Daníel Eldjárn

Sem betur fer náði starfsmaður ferjunnar að staðsetja lyklanna á hæðinni fyrir neðan og finna þá og því gat ferðin haldið áfram. Þó voru komnar nýjar reglur um að bannað væri að henda bíllyklunum framvegis.

Tjaldsvæðið upp við skemmtistað

Strákarnir brunuðu í gegnum Frakkland, Belgíu og Þýskaland áður en þeir komu til Prag í Tékklandi, en þar höfðu skipuleggjendur kappakstursins skipulagt smá hóf fyrir keppendur. Var það haldið í gamalli lestarstöð sem hafði verið breytt í skemmtistað, en „tjaldsvæðið“ sem keppendum hafði verið lofað var svo í um það bil 30 metra fjarlægð frá skemmtistaðnum að sögn Tómasar.

Istanbúl í Tyrklandi.
Istanbúl í Tyrklandi. Mynd/Daníel Eldjárn

Morguninn eftir var lagt af stað áleiðis til Ungverjalands og þaðan til Rúmeníu. Eftir allskonar vandræði, týndan síma og greiðslukort, hringavitleysur á ungverskum vegum o.s.frv. ákváðu þeir að keyra alla nóttina og koma sér til Sibiu í Rúmeníu, en þar höfðu þeir bókað gistingu á Airbnb, eftir þó nokkrar nætur í tjaldi eða í bílnum.

Tómas segir að af þeim löndum sem þeir hafi komið til á ferðinni sé Rúmenía eiginlega uppáhaldsstaðurinn. „Þetta verður eiginlega bara áhugaverðara því austar sem við förum, Rúmenía var mjög skemmtileg, pínu ítölsk stemning og mjög fallegt,“ segir hann.

Tommi eldar kvöldmat á strönd í Tyrklandi þar sem þeir …
Tommi eldar kvöldmat á strönd í Tyrklandi þar sem þeir gistu. Mynd/Daníel Eldjárn

Sýndi þeim byssu og heimtaði peninga

Frá Rúmeníu lá leiðin til Tyrklands þar sem slappað var af í Istanbúl í tvær nætur. Tómas segir að sá leggur hafi að mestu gengið vel fyrir sig. Þeir hafi þó lent í einum spilltum öryggisverði við vegaeftirlit í Rúmeníu sem gerði ekkert annað en að sýna þeim byssuna í slíðrinu og segja ítrekað „euro euro.“ Þeir hafi aftur á móti ekki verið á þeim buxunum að stuðla að spillingu og því ákveðið að byrja að fara með nokkrar vísur á íslensku og spila á munnhörpu fyrir hann. Eftir smá stund af þessari vitleysu ákvað vörðurinn að gefast upp og leyfði þeim að halda áfram.

Samtals voru þeir fjórar nætur í Tyrklandi, meðal annars í Cappadonicu, sem er þekkt fyrir fallegt landslag og mikið um loftbelgi á lofti.

Helgi mundar lykilinn góða sem týndist næstum því.
Helgi mundar lykilinn góða sem týndist næstum því. Mynd/Daníel Eldjárn

Húsdýr á hraðbrautinni

Tómas segir að nú séu þeir staddir í Georgíu, „sikksakkandi“ á milli húsdýra sem gangi um hraðbrautirnar og segist hann aldrei hafa verið jafn smeykur í umferð áður. Þá sé ekki óalgengt að sjá bíla reyna framúrakstur í blindbeygjum og á óbrotnum línum.

Næsti áfangastaður er svo Rússland, en þangað ættu þeir að komast seinna í dag eða í nótt. Gera þeir ráð fyrir talsverðri töf við landamæraeftirlitið, enda aðeins nokkur ár síðan stríð var milli landanna um yfirráð yfir héruðum í norðurhluta Georgíu. Eftir Rússland tekur svo Mongólía við og segist Tómas vonast eftir hafsjó af ævintýrum á leiðinni.

Á leið frá Batumi til Tblisi í Georgíu
Á leið frá Batumi til Tblisi í Georgíu Mynd/Daníel Eldjárn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert