„Þetta var fullkomin sturlun“

Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Innipúkans, var í góðum gír þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum rétt fyrir hádegi. „Ég er kominn niður á Húrra og við erum að gera svæðið og allt klárt fyrir kvöldið í kvöld.“

Ásgeir svaraði í einu orði þegar hann var beðinn að lýsa gærkvöldinu. „Sturlað.“ Og bætti síðan við, „þetta var fullkomin sturlun og það var ógeðslega gaman. Allir voru glaðir og það var uppselt í gær.“ Helgarpassar á hátíðina eru uppseldir en hægt er að kaupa miða á stök kvöld. Miðasala fyrir laugardagskvöldið hefst klukkan fjögur á skemmtistaðnum Húrra.

„Fólk var glatt. Reyndar vildu margir sjá Jakob Frímann og Amabadama á Húrra, og það komust ekki allir sem vildu. Hinir fóru þá í staðinn á Gaukinn og sáu Maus, sem er alls ekki slæmt.“

Innipúkamenn, eigendur Gauksins og Húrra tilkynntu í gær að 300 krónur af öllum seldum Fernet-Branca skotum sem seljast yfir helgina á Innipúkanum renni í sjóð handa Alexendru Baldursdóttur, gítarleikara í Mammút.

 „Hún lenti í hræðilegu innbroti og missti margt. Í kjölfarið af því kom smá undiralda í alla sem eru að spila hér og langflestir ætla að gefa 25.000 í þennan sjóð. Einnig ætla skipuleggjendur og umboðsmenn að leggja í púkkið. Alexandra er okkar kollegi og vinur og við ætlum að sjá til þess að hún jafni sig, allavega fjárhagslega,“ segir Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert