Alvarleg líkamsárás við Fiskislóð

Styrmir Kári

Klukkan hálfsjö í morgun fékk lögreglan tilkynningu um líkamsárás í húsi við Fiskislóð. Árásin reyndist nokkuð alvarleg. Einn var fluttur á slysadeild en árásarmaðurinn handekinn og vistaður í fangageymslu. Hann var í mikilli vímu og verður skýrsla tekin þegar af honum rennur.

Nokkuð var einnig um eignaspjöll og innbrot, en klukkan hálfellefu í morgun barst lögreglunni tilkynning um innbrot og þjófnað í íbúð í austurborginni. Klukkan hálffimm í dag barst svo tilkynning til um þjófnað í verslun á svæði lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti.

Á sama tíma barst tilkynning um eignaspjöll, þar sem brotin var framrúða á bíl við Síðumúla. Töluvert var um rúðubrot í dag, en lögreglunni bárust einnig tilkynningar um slíkt athæfi við Leirubakka klukkan átta í morgun. Önnur tilkynning um rúðubrot barst klukkan hálftíu, þar sem rúður voru brotnar í tveimur húsum í Drafnarfelli og Eddufelli. 40 mínútum síðar barst tilkynning um að brotin hefði verið rúða í bíl við Þórufell. Ekki er vitað hvort þessi eignaspjöll tengjast.

Þá var maður stöðvaður við vímuefna- og ölvunarakstur klukkan hálfníu í morgun. Hann var einnig ökuréttindalaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert