„Búinn á því eftir hálfa mínútu“

Evrópumeistaratitli fagnað!
Evrópumeistaratitli fagnað! Ljósmynd/Ólöf María Vigfúsdóttir

Marinó Páll Valdimarsson var himinlifandi þegar blaðamaður mbl.is náði í skottið á honum í kvöld. Lið hans, 100% Bieceps, sigraði Evrópumeistaramótið í Mýrarbolta á Ísafirði í dag. „Við erum fyrsta blandaða liðið sem vinnur karlaflokkinn,“ segir Marinó.

Auk Marinós voru í sigurliðinu Ívar Örn Arnarsson, Sandra Sif Magnúsdóttir, Vignir Örn Guðmundsson, Andri Þór Lefever, William Óðinn Lefever, Kristín Lovísa Jóhannsdóttir, Herdís Helga Arnalds, Margrét Sveinsdóttir, Bryndís Þóra Þórðardóttir og Sólveig Sif Guðmundsdóttir. Ólöf María Vigfúsdóttir sá síðan um að öskra liðið áfram af hliðarlínunni.

„Þetta er í fyrsta skipti sem allir í liðinu, nema tveir, taka þátt.“ Aðspurður hvort drulluboltinn sé ekki erfiður segir Marinó svo vera. „Þetta er bölvað streð. Maður sekkur alveg upp að hnjám og er nánast búinn eftir hálfa mínútu á vellinum.“

Hann segir mótið hafa verið algjöra snilld. „Við áttum alls ekki von á því að vinna. Við skröpuðum saman í skemmtilegt lið með skemmtilegu fólki og ætluðum að skemmta okkar. Síðan unnum við bara leik eftir leik.“

Marínó er ánægður með dvölina fyrir vestan. „Það var reyndar frekar kalt í gær en birti til í dag og veðrið var geðveikt. Það er mjög gott að hafa sól og smá hita þegar maður er að svamla í kaldri drullu. Vellirnir eru misjafnir, á þeim verstu er maður fastur í sporunum!“

Ibizafjörður stóð undir nafni í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert