Fær að kynnast öðrum í sömu stöðu

Vésteinn Ingibergsson ásamt eiginkonu sinni Svandísi Rós Hertervig sem lést …
Vésteinn Ingibergsson ásamt eiginkonu sinni Svandísi Rós Hertervig sem lést í fyrra. Mynd/Úr einkasafni

„Ég vildi styðja við samtökin sem hafa hjálpað mér eftir að ég missti eiginkonuna mína fyrir tæpu ári síðan,“ segir Vésteinn Ingibergsson sem hleypur til styrktar samtökunum Ljónshjarta í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst. 

Ljónshjarta eru samtök sem voru formlega stofnuð þann 28. nóvember 2013 og eru samtök ungs fólks sem hafa misst maka.

Hann segist hafa kynnst samtökunum strax eftir andlát eiginkonu sinnar, Svandísar Rósar Hertervig. „Hjá samtökunum hef ég kynnst fólki sem hefur hjálpað mér í gegnum sorgina. Þau standa fyrir fyrirlestrum um ýmis áhugaverð málefni fyrir fólk sem hefur misst maka. Síðan hafa þau staðið fyrir samverustundum, bæði fyrir okkur og fyrir börn fólks sem hefur misst maka,“ segir Vésteinn en hann á tvær dætur sem eru tvíburar. 

„Einföld ákvörðun“

Hann segist hafa heyrt af hópnum áður en hann kynntist starfinu. „Þessi samtök byrjuðu víst sem Facebook-hópur. Þar eru í dag 160 manns í dag, og er þar fólk sem er mislangt komið í sorgarferlinu og því misjafnlega virkt. Yfirleitt eru það um 20-30 manns sem taka þátt í viðburðunum.“ 

„Fyrir mig sjálfan þá fannst mér það besta við að kynnast samtökunum að hitta fólk í sömu stöðu og ég og geta talað um hlutina. Hitta einhvern sem skilur mann,“ segir Vésteinn. 

Hann segist áður hafa hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu og hugmyndin um að hlaupa til styrktar Ljónshjarta hafi verið fljót að kvikna. 

„Ég vissi af þessum samtökum áður en konan mín dó og sá til dæmis að það voru margir duglegir að hlaupa til styrktar þeim í fyrra. Ég hef nokkrum sinnum áður hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu þannig að þetta var einföld ákvörðun.“

„Söfnunin hefur gengið mjög vel, ég hef aðallega verið að auglýsa þetta svolítið á Facebook og stefni á að vera duglegri að því núna þegar nær dregur,“ segir Vésteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert