Íslendingur sigraði í eldsmíði

Beate Stormo með hest sem hún eldsmíðaði eftir eigin teikningu.
Beate Stormo með hest sem hún eldsmíðaði eftir eigin teikningu.

Íslensk kona, Beate Stormo frá Kristnesi í Eyjafirði, varð í fyrsta sæti í flokki meistara á Norðurlandameistaramóti eldsmiða í Fiskars í Finnlandi í dag. Einar Gunnar Sigurðsson keppti í flokki sveina og lenti í fjórða sæti og í flokki ungliða keppti Ingvar Matthíasson sem lenti í öðru sæti. 

Í tilkynningu segir að aðalmarkmið keppninnar sé að viðhalda eldsmíðahefðinni í norrænu löndunum, að styrkja samvinnu eldsmiða og hvetja til og styrkja yngri eldsmiði til að afla sér sem víðtækastrar reynslu til að viðhalda gæðum í greininni. Mótið var skipulagt af tveimur finnskum eldsmiðahópum, þeim Suomen Sepät ry og Taidesepät ry. Verkefnið sem keppendur fengu um helgina var að smíða tölustafi. 

Íslandsmeistaramótið í eldsmíði var haldið á safnasvæðinu á Akranesi í byrjun júní á þessu ári en Beate Stormo frá Kristnesi í Eyjafirði kom, sá og sigraði og hélt því til Finnlands til að keppa í flokki meistara.  

Norðurlandameistaramótið er haldið annað hvert ár í fimm löndum til skiptis, þannig að búast má við að næsta mót verði haldið hér á Íslandi árið 2023 en Danmörk mun hýsa næsta mót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert