Ragnheiður Elín á „bláu vaktinni“

Valur Bogason, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Gunnlaugur Grettisson og Páll Marvin …
Valur Bogason, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Gunnlaugur Grettisson og Páll Marvin Jónsso

„Ég held þetta sé í þriðja sinn sem ég geri þetta,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún birti í gær mynd á Facebook þar sem hún er í gæsluvesti merktu ÍBV. Á myndinni með henni eru Valur Bogason, Gunnlaugur Grettisson og Páll Marvin Jónsson.

„Páll Marvin, bæjarfulltrúi hérna í Vestmannaeyjum, er að skipuleggja þessa vakt, sem er kölluð bláa vaktin því þarna erum við, bæjarfulltrúarnir og ég undanfarin þrjú ár,“ segir Ragnheiður Elín. Hún segir bláu vaktina, sem svo er kölluð því allir vaktmenn eru sjálfstæðismenn, standa vaktina í hliðinu við Herjólfsdal hluta laugardagsins og tryggja að allir sem óska þar inngöngu séu með armband.

Allir reyna að hjálpa

Hún segir flokksaðild þó ekki skilyrði - það hittist bara þannig á að vaktin frá fjögur til sjö sé svona mönnuð. „Þetta er eiginlega vinnuheiti,“ segir hún og hlær. „Bæjarstjórinn var reyndar fjarri en hefur lengi verið hluti af vaktinni.“ Hún segir þetta gott dæmi um hvernig Þjóðhátíð er. „Allir reyna að hjálpa og leggja sitt af mörkum til að hátíðin gangi vel.“

Ragnheiður Elín segir hátíðarhöld hafa farið vel fram. „Þetta er búin að vera mjög góð Þjóðhátíð. Maður sér það líka svo vel í þessu litla gæsluhlutverki hvað allt fólkið er mikið til fyrirmyndar.“ Hún segir þó að heldur færri séu á hátíðinni en í fyrra, en þá var hátíðin mjög stór. Sunnudagurinn sé hins vegar stærstur, þannig að von er á fleira fólki. „Það verður örugglega líf og fjör í dalnum í kvöld.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert