Þrautaganga Gunnars Helgasonar

Gunnar Helgason rithöfundur og leikari.
Gunnar Helgason rithöfundur og leikari. Styrmir Kári

Leikarinn góðkunni Gunnar Helgason missti í ár af Neistaflugi í Neskaupstað í fyrsta skipti í 15 ár, en síðasta vika hefur vægast sagt verið þrautaganga hjá honum sem byrjaði með köldum kjötbita í veislu í Borgarfirði síðasta laugardag. Gunnar skrifar um „píslarsögu“ sína á Facebook, en þar útskýrir hann af hverju hann hafi ekki komist til að stjórna dagskránni fyrir austan eins og hann hefur gert undanfarin ár.

Á laugardaginn fyrir viku mætti Gunnar sem sagt í reisugilli hjá vinafólki og fékk sér kaldar grísakótelettur, en ekki vildi betur til en að biti festist í vélindanu og þá voru góð ráð dýr. Byrjað var að banka á bakið á Gunnari, en það skilaði engum árangri. Gat hann þegar þarna var komið ekki kyngt og var allt stíflað.

„Munnvatnið komst ekki einu sinni niður. Þá bað ég um vatn. Það hlyti að geta þrýst bitanum á áfangastað. Nei! Vatnið komst ekki niður heldur endaði á að frussast út um nef og eyru og sullast ofan í öndunarveginn,“ segir Gunnar í færslunni, en næsta mál á dagskrá var að reyna Heimlich-aðferðina. Þrátt fyrir margar tilraunir skilaði hún heldur engum árangri öðrum en að Gunnar marðist á rifbeinum.

Eftir þetta fóru að koma fram óhefðbundnari hugmyndir, en þær gerðu heldur ekki mikið gagn. „Þá datt mér þjóðráð í hug. Ef hann vildi ekki niður helvítis bitinn yrði hann að fara upp. Ég reyndi því að GUBBA kjötinu upp úr mér. Það var ekki góð hugmynd. Það hafði þær afleiðingar í för með sér að magainnihaldið endaði í lungunum á mér … eða svona smá hluti þess,“ segir í pistlinum hjá Gunna.

Áður en ákveðið var að keyra Gunnar til læknis var ákveðið að reyna eina lokatilraun. Það fól í sér að hella í hann snafsi og reyna að þvinga bitann niður, en hugmyndin var að vélindað væri með spasma sem snafsinn gæti slegið á. „Það var sennilega versta hugmynd sem ég hef heyrt um ævina að prófa hann. Hann hafði þær afleiðingar tvennar að annarsvegar sortnaði mér fyrir augum og komst loks í andnauð og svo hinsvegar að það sem ekki sprautaðist út um munn, nef, eyru og augu af þessum galdradrykk slapp ofan í lungun á mér.“

Loks var keyrt með Gunnar til læknis í Borgarnesi sem sendi hann til Reykjavíkur þar sem hann var svæfður og bitinn tekinn upp úr honum. Í frásögn Gunnars segir hann meðal annars frá því að hann hafi verið látinn sofa úti á gangi undir komubjöllu sjúklinga á bráðadeildinni, en lesa má greinina í heild hér að neðan. 

Hér kemur smápíslarsaga Gunnars aumingja Helgasonar. Hún er algerlega sönn og hvergi fært í stílinn nema á augljósum stö ...

Posted by Gunnar Helgason on Saturday, 1 August 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert