„Sporin eru ansi þung“

Olga ásamt Kolfinnu Rán dóttur sinni.
Olga ásamt Kolfinnu Rán dóttur sinni.

„Þau eru nú satt að segja ansi þung sporin núna. Það verður allt svolítið erfiðara þegar svona áfall dynur yfir,“ segir Olga Færseth sem undirbýr sig núna fyrir 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu. Hún hleypur til stuðnings styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna en dóttir hennar greindist með krabbamein í júní á þessu ári.

Olga á glæstan feril í íþróttum að baki og segir undirbúninginn ganga vel. „Þetta er í þriðja skiptið sem ég hleyp í Reykjavíkurmaraþoninu. Við Pálína vorum búnar að skrá okkur í hlaupið í vor, við ætluðum okkur alltaf að hlaupa. Ég hef ekki áður verið að heita á eitthvert málefni en fannst það bara engin spurning núna að taka þetta með trompi,“ segir Olga en maki hennar, Pálína Guðrún Bragadóttir, hleypur einnig til stuðnings sama málefni. 

Ég get nú ekki sagt að ég hafi verið mikið að hlaupa undanfarið en ég hef alltaf tekið smátarnir. Það koma mánuðir þar sem ég hleyp mjög mikið og svo minna þess á milli. Ég er núna bara að reyna að koma mér í stand svo ég geti hlaupið tíu. Ég ætti nú alveg að geta það, en það verður ekkert heimsmet slegið,“ segir Olga og hlær.

Andlega hliðin ekki síður mikilvæg

Kolfinna Rán, tveggja ára dóttir þeirra Olgu og Pálínu, greindist með krabbamein í júní á þessu ári og fékk fjölskyldan strax heimsókn frá styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. „Félagið veitir margvíslegan stuðning. Þetta er ekki bara fjárhagslegur stuðningur, það er hugsað mikið um stuðning til foreldra, hvort sem það er sálfræðihjálp eða sjúkraþjálfun. Það er lagt mikið upp úr því að foreldrarnir fái hjálp og að þeir séu í standi til þess að takast á við það sem fylgir því að vera með veikt barn. Andlega hliðin er ekki síður mikilvæg en sú fjárhagslega.

Félagið starfrækir til dæmis tvo sumarbústaði í vernduðu umhverfi sem hægt er að fá í útleigu. Því þegar börn verða veik er ekki hægt að fara hvert sem er. Fjölskyldur með veik börn eiga það til að einangrast svolítið inni á spítulum eða heimilum, en þá er hægt að gera sér dagamun með því að nýta sér þessa bústaði,“ segir Olga.

Þær Pálína hafa fengið fleiri í lið með sér í hlaupahópnum Áfram Kolfinna Rán og Olga segir alla velkomna. „Við munum ekkert haldast í hendur alla leiðina þannig að það skiptir ekki máli hvort fólk ætlar að hlaupa 10 km eða lengra. Það væri bara gaman að sjá sem flesta í þessum hópi með okkur.“

Hún segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi eftir áfallið. „Það er oft þannig þegar mikið liggur við og fólk lendir í áfalli að þá eru Íslendingar til í að leggja góðu málefni lið. Ef fólk ætlar að hlaupa en veit ekki hvaða málefni það vill styðja er það velkomið í hópinn,“ segir Olga að lokum. 

Olga Færseth eins og flestir þekkja hana í baráttunni á …
Olga Færseth eins og flestir þekkja hana í baráttunni á vellinum. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert